Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (aldur hjónaefna, könnunarmenn o.fl.). Þingskjal 1113, 646. mál, 151. löggjafarþing.

29. apríl, 2021
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessu frumvarpi sem tekur fyrir að börn undir 18 ára aldri geti gengið í hjónaband, þrátt fyrir að um leyfi forsjárforeldra sé að ræða.

Með því að banna hjónabönd barna uppfylla íslensk stjórnvöld Samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem öðlaðist gildi hér á landi 1985 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem öðlaðist gildi hér á landi 1989.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hjúskapur sem stofnaður er til erlendis verði ekki viðurkenndur hér á landi ef annað hjóna eða bæði voru yngri en 18 ára þegar vígsla fer fram, en þó er heimilt af viðurkenna þann hjúskap „þegar sérstaklega stendur á og ótvíræðir hagsmunir þess sem var yngri en 18 ára krefjast þess“, ef viðkomandi hafði náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn er viðurkenndur í því landi þar sem hjónavígslan fór fram.

Kvenréttindafélag Íslands gerir sér grein fyrir að ofangreind undanþága sé nauðsynleg, til að tryggja m.a. erfðarétt hjóna eða aðstæður ungra barna. Hjón sem sækja um undanþágu á grundvelli þessara greina kunna í mörgum, jafnvel flestum tilvikum, vera komin á fullorðinsaldur. Kvenréttindafélag Íslands hvetur þó til þess að komið í veg fyrir viðurkenningu á hjúskap sem stofnaður hefur verið á erlendri grundu ef annar hvor aðilinn sé enn á barnsaldri. Með því banni væri nauðsynlegt að gera skýrt í lögunum að viðkomandi barn fái undantekningarlaust sjálfstætt dvalarleyfi hér á landi, óháð dvalarleyfi maka, sem og rétt á viðeigandi stuðning hér á landi til að lifa óháðu og frjálsu lífi.