Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Mál nr. 25/2020, forsætisráðuneytið.


Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir ánægju með þessa þingsályktunartillögu sem felur í sér aðgerðir til að efla forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þær forvarnaaðgerðir sem boðaðar eru byggjast á markvissri kennslu á öllum skólastigum, í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. 

Telur Kvenréttindafélag Íslands að þessi fræðsla ætti að haldast hönd í hönd við kennslu í kynja- og jafnréttisfræði á öllum skólastigum. 

Kynjafræði á öllum skólastigum

Kvenréttindafélag Íslands ályktaði þann 20. febrúar 2014 að kynjafræði ætti að vera skyldufag í grunn- og framhaldsskólum landsins, þegar félagið sendi frá sér ályktun ásamt Landssambandi femínistafélaga framhaldsskólanna sem þá var starfandi. Bentu félögin á að þrátt fyrir að aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla kveði á um að nám byggðist m.a. á jafnrétti, væri ekki hægt að sjá að kennslu hafi verið breytt að ráði. Ályktuðu félögin að skólar landsins væru að bregðast skyldum sínum við komandi kynslóðir að hafa ekki lagt meiri áherslu á jafnréttisfræðslu meðal ungs fólks en raun ber vitni, og hvöttu stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, til að leita leiða til að kenna jafnrétti og kynjafræði á öllum skólastigum.

Stöndum við í Kvenréttindafélaginu enn fast á bak við þessa hvatningu, við þessa kröfu, að stjórnvöld fylgi eftir þeirri stefnu sem mörkuð er í aðalnámskrá og leggi fram það fjármagn og starfskraft sem til þarf að skapa námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla í kynja- og jafnréttisfræði, sem og að endurskipuleggja nám í kennaraháskólum landsins til að mennta kennara til að kenna þessi fræði. 

Í aðgerðaráætluninni er gert ráð fyrir sérstöku kynningarátaki um gildi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum og þar á meðal um gildi þess að gera kynjafræði að skyldufagi (verkefni D6, efling kynjafræðikennslu). Er þetta að sjálfsögðu verðugt verkefni, en gengur ekki nógu langt. 

Það þarf að stórefla kynjafræðikennslu, bæði í framhaldsskólum en einnig á leik- og grunnskólastigi, og þarf sérstaklega að fjármagna gerð námsefnis í kynja- og jafnréttisfræði og endurmenntun kennara í þeim greinum.

Jafnréttismiðað námsefni

Bendum við á tækifæri sem felst í þessari áætlun, í verkefni A3 sem fjallar um ráðningu ritstjóra hjá Menntamálastofnun. Kvenréttindafélag Íslands telur jákvætt að ritstjóri/verkefnastjóri verði ráðinn til starfa hjá Menntamálastofnun til að byggja upp þekkingu á námsefnisgerð sem styður við forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. 

Teljum við mikilvægt að víkka hlutverk þessa ritstjóra til að fara yfir allt útgefið efni Menntamálastofnunar með tilliti til jafnréttis, bæði jafnréttis kynjanna og jafnréttis á grundvelli annarra breytna s.s. uppruna, fötlunar, kynhneigðar og -vitundar, líkamsgerðar, o.fl. 

Við minnum á svarta skýrslu frá 2011 þar sem Jafnréttisstofa rannsakaði hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla, þar sem fram kom að konur væru algjörlega fjarverandi á 535 blaðsíðum af 685 sem verður til þess að þegar nemendur á miðstigi fletta námsbókum í sögu, blaðsíðu fyrir blaðsíðu og læra efni þeirra, eru engar konur nefndar á nafn á yfir 78% af blaðsíðum námsbókanna. Af 556 nafngreindum einstaklingum í námsbókum í sögu á miðstigi eru 88 konur eða 16% (Kristín Linda Jónsdóttir, Rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla. Jafnréttisstofa, 2011)

Fræðsla og endurmenntun starfsfólks

Í aðgerðaráætluninni eru verkefni sem kveða á um að starfsfólk leikskóla (B1), grunnskóla, frístundarheimila og félagsmiðstöðva (C2), framhaldsskóla (D2), og starfsfólk og sjálfboðaliðar íþrótta- og æskulýðsstarfs og annars tómstundastarfs (E1) hljóti fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og forvarnir sem hæfi á þeirra sviðum. 

Fræðsla og endurmenntun starfsfólks er grundvöllurinn að öllu forvarnarstarfi og að því að okkur takist að uppræta kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni á öllum sviðum samfélagsins. Því þykir okkur bagalegt að sjá að ekkert fjármagn fylgi þessum mikilvægu verkefnum. Við hvetjum til að sérstöku fjármagni sé áætlað í fræðslu og endurmenntun starfsfólks.

Einnig bendum við á að ekki er nóg að aðeins starfa að endurmenntun starfandi starfsfólks, heldur einnig huga að menntun framtíðarstarfsfólks. Í þessa áætlun ætti einnig að bæta inn fjármögnuðu verkefni sem kveður á um fræðslu til nemenda á háskólastigi sem stunda nám í kennslufræðum, námsráðgjöf, íþróttafræði og öðrum greinum sem leiðir til starfa með börnum. Þessi fræðsla yrði þá unnin í samvinnu með viðeigandi háskólastofnunum.

Aðrar fréttir