23. janúar 2018
Hallveigarstöðum, Reykjavík

 

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að fyrir Alþingi liggi frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum varðandi kynferðisbrot. Tímabært er að endurskoða lög um kynferðisbrot og skapa þannig umræður um eðli þessara brota. Sú staðreynd að aðeins lítill hluti kynferðisbrota er tilkynntur (skv. skýrslu félagsmálaráðuneytis frá 2010 „Rannsókn á ofbeldi gegn konum“) og enn minni hluti þeirra leiðir til ákæru og sakfellingar (sjá bækling Stígamóta 2012 „Um nauðganir“) gefur tilefni til þess að skoða málaflokkinn rækilega, bæði lagaákvæðin sem gilda um kynferðisbrot og einnig hvernig staðið er að rannsókn og saksókn mála.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og síðan þá hefur #metoo byltingin minnt okkur rækilega á hvaða veruleika konur búa við og að réttarkerfið er oft alls ekki í stakk búið til að takast á við mál af þessu tagi.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þeirri áherslu á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt varðandi kynlíf, líkama og tilfinningalíf sem kemur fram í frumvarpinu. Sá réttur er ríkur og áhersla á slíkt í löggjöf um kynferðisbrot er jákvæð. Kvenréttindafélagið tekur undir þau sjónarmið sem lýst er í greinargerð með frumvarpinu að áhersla á samþykki eða skort á því gæti breytt viðhorfum til kynferðisbrota og haft áhrif á umræðu um kynlíf almennt meðal fólks, ekki síst ungs fólks. Mikilvægt er að ákvæði um kynferðisbrot endurspegli viðhorf og réttarvitund almennings. Kvenréttindafélagið leggur einnig mikla áherslu á fræðslu og telur að fræðsla sé meðal áhrifaríkustu forvarna gegn kynferðisbrotum.

Mikilvægt er að taka inn í umræðuna um lagabreytingar rannsóknir fræðafólks á kynferðisbrotum eins og gert er í þessu frumvarpi, þar sem tekið er tillit til algengra viðbragða þolenda.

Í löggjöf ríkja eru almennt tvær tegundir af kynferðisbrotaákvæðum. Annað hvort er byggt á skorti á samþykki, eins og gert er í engilsaxneskum rétti, eða byggt er á verknaðaraðferðinni, ofbeldi eða hótun um ofbeldi, eins og gert hefur verið í okkar löggjöf og víða í Evrópu. Með þessu frumvarpi er lagt til að áherslan hér verði skortur á samþykki. Jákvætt er að gerð sé tilraun til þess að skilgreina hvernig samþykki er gefið, þ.e. með frjálsum vilja, og að ekki sé hægt að fá það fram með ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Kvenréttindafélagið lýsir þó ákveðnum áhyggjum að hætta sé á því að rannsókn og saksókn brota á grundvelli þessa nýja nauðgunarákvæðis fari að snúa enn meira að því hvað brotaþoli gerði, sagði o.s.frv. Um þessi sjónarmið var fjallað við lagabreytingar sem gerðar voru á kynferðisbrotakaflanum árið 2007, og vísað er til þeirra í frumvarpinu.

Það er tekið fram í frumvarpinu að ekki sé lagt til að breyta skuli huglægum skilyrðum nauðgunarbrota. Þannig að ásetningur verður áfram saknæmisskilyrði og ekki er lagt til að refsað verði fyrir gáleysisbrot. Kvenréttindafélagið hvetur til þess að skoðað verði hvernig það hefur gefist í öðrum löndum að gera nauðgun að gáleysi refsiverða.

Kvenréttindafélag Íslands bendir einnig á þróun í kynferðisbrotamálum sem hefur orðið á undanförnum árum og áratugum á alþjóðavettvangi og knúin hefur verið áfram af dómum alþjóðlegra stríðsglæpadómstóla vegna Rwanda og Júgóslavíu. Í dómum sem fallið hafa (sá fyrsti var Akayesu málið, nr. ICTR-96-4-T) er hvorki stuðst við samþykkisskilgreiningu né gerð krafa um ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Í stuttu máli er nauðgun skilgreind sem kynferðisleg innrás í þvingandi aðstæðum. Þvingunin getur verið sálfræðileg, efnahagsleg eða misnotkun á trausti. Gengið er út frá því að kynlíf sé almennt gagnkvæmt, og að skortur á gagnkvæmni leiði til þess að um nauðgun sé að ræða. Fræðikonan Catherine MacKinnon hefur m.a. skrifað um þessi sjónarmið og lagt til að skilgreining sem þessi sé notuð í rétti einstakra ríkja. Kvenréttindafélagið tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt sé að fara þessa leið í skilgreiningu á nauðgun í íslenskum rétti, en telur þó að þessi sjónarmið eigi heima í umræðu um nýja kynferðisbrotalöggjöf.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar hugmyndum sem hér koma fram um breytingar á nauðgunarákvæðinu og kallar eftir því að fram fari umræða á breiðum grundvelli, með aðkomu fræðimanna og grasrótarsamtaka, áður en tekin er ákvörðun um lagabreytingar. Kvenréttindafélagið telur að umræða og endurskoðun á þessum lögum sé löngu tímabær og hefur hér dregið upp nokkur sjónarmið sem félagið telur að eigi heima í umræðu um málið.

Aðrar fréttir