Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum (aukin vinnuvernd og notendastýrð persónuleg aðstoð), þingskjal 698 – 454. mál.

Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,
nr. 46/1980, með síðari breytingum, 1. gr. b

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að í þessu frumvarpi til breytinga á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 skuli tekið fram að ráðherra sé  heimilt að setja reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Lítið er vitað um útbreiðslu kynferðislegrar áreitni í íslensku samfélagi, en stutt er frá því að gerð var rannsókn innan lögreglunnar sem leiddi í ljós að þriðjungur kvenna  í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni oftar en tvisvar sinnum á sex mánaða tímabili á móti tæplega 18% karla (Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar, 2013). Þessar niðurstöður komu fólki á óvart og afhjúpaði þá staðreynd að kerfið var mjög vanbúið til að bregðast við málum af þessum toga.

Í apríl 2013 birti velferðarráðuneytið drög að nýrri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað. Nauðsynlegt er að staðfesta þessa breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum til að sú reglugerð taki gildi. Fólk sem verður fyrir kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi er gefin aukin vernd og leið til að leita réttar síns.

Kvenréttindafélagið spyr í framhaldi hvort Vinnueftirlitið fái aukið fjármagn til þess að vinna að þessu verkefni, t.d. til að upplýsa starfsfólk og vinnustaði um hvað kynferðisleg áreitni er og hvernig bregðast eigi við henni?

Breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum,
4. gr. b

Kvenréttindafélag Íslands fagnar einnig því að við endurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum sé verkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPF) framlengt og lagt er til að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er NPA ætlað að tryggja fötluðum einstaklingum réttinn til sjálfstæðs lífs þar sem þeir geti sjálfir ráðið sér aðstoðarfólk og stjórnað lífi sínu þrátt fyrir þörfina á aðstoð annarra. Niðurstöður nýlegar rannsóknar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið (Ofbeldi gegn fötluðum konum, 2013) varpaði ljósi á margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum, við hvers konar aðstæður það á sér stað og afleiðingarnar sem það hefur.

Í ljósi niðurstaðna þessarar rannsóknar telur Kvenréttindafélagið að mikilvægt sé að stjórnvöld að tryggja að fatlaðir einstaklingar geti notið þjónustuúrræða eins og NPA þar sem einstaklingurinn sjálfur stjórnar sínu lífi. Ofbeldi þrífst síður við aðstæður þar sem einstaklingurinn hefur stjórn á eigin tilveru.

Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,
nr. 46/1980, með síðari breytingum, 3. gr.

Kvenréttindafélag Íslands gerir athugasemdir við bráðabirgðaákvæði 3. grein þessa lagafrumvarps þar sem aðilum vinnumarkaðarins er gert heimilt að víkja frá ákvæðum 53. og 56. um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli samstarfsverkefnis ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð.

Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að starfsréttindi og starfsumhverfi starfsmanna í velferðarþjónustu séu ekki skert. Konur eru meirihluti starfsmanna í umönnunar- og velferðargeiranum, mikið álag er á starfsmönnum í velferðarþjónustu, og störfin sem þar bjóðast eru ekki hátt launuð. Skert starfsréttindi mega ekki standa yfir langt tímabil. Tryggja þarf sanngjarna umbun ef réttindi starfsmanna um hvíldartíma og næturvinnutíma eru skert um tíma.

Kvenréttindafélag Íslands telur sjálfsagt að tryggja skuli réttindi og öryggi bæði þeirra sem nota NPA-þjónustu og þeirra sem veita hana

23. febrúar 2015
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Aðrar fréttir