Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um drög að frumvarpi til laga um þungunarrof.
7. október 2018
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands styður nýtt frumvarp til laga um þungunarrof.
Félagið sendi 15. júní 2016 umsögn til nefndar um endurskoðun laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingu og ófrjósemisaðgerðir sem skipuð hafði verið af heilbrigðisráðherra og greinilegt er að tekið hefur verið tillit til þeirrar umsagnar við skrif þessara nýju laga um þungunarrof sem nú liggja fyrir til umsagnar.
Kvenréttindafélag Íslands er í meginatriðum sátt við þessi nýju lög, en þó eru einstök atriði sem stjórn félagsins vill gera athugasemdir við og hvetja til endurskoðunar á. Sérstaklega viljum við gera athugasemdir við 4. grein laganna, sem við teljum geta stefnt heilsu kvenna í hættu.
3. gr. Réttindi kvenna við þungunarrof
Í 3. grein laganna er kveðið á um að “[k]onur eiga rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrof”.
Kvenréttindafélag Íslands telur að ungt fólk sem ekki hefur náð lögaldri skuli hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama. Við hvetjum til að þessari grein verði breytt og skýrt verði að ungt fólk sem ekki hefur náð lögaldri skuli hafa rétt til að rjúfa þungun, og að ekki þurfi þátttöku eða leyfi foreldra eða annarra forráðamanna.
4. gr. Heimildir til þungunarrofs
Í 4. grein laganna er kveðið á um að einungis sé heimilt að framkvæma þungunarrof eftir lok 18. viku þungunar “ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun”.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hvetur til að orðalagi þessarar greinar verði breytt svo að taki einnig til heilsu kvenna, þ.e. að orðalagi í greininni verði breytt í “ef lífi eða heilsu þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun”.
Við bendum á að í greinargerð með þessum lögum er á einum stað sagt að lagt sé til að þungunarrof sé heimilt eftir lok 18. viku “”ef lífi og heilsu þungaðrar konu er stefnt í hættu með áframhaldandi þungun” (bls. 12).
Þá tekur stjórn Kvenréttindafélags Íslands undir þau sjónarmið sem komið hafa fram í fjölmiðlum frá yfirlækni fæðingarþjónustu á Landspítalanum um að í núverandi frumvarpsdrögum þrengi í raun að rétti til ákvörðunar um þungunarrof miðað við þau lög og það verklag sem nú er í gildi og leggur til að mörkin verði að lokum 22. viku (sjá: http://www.ruv.is/frett/rymri-og-threngri-rettur-til-ad-rjufa-medgongu).
7. gr. Fræðsla og ráðgjöf
Í 7. grein laganna kemur fram að áður en þungunarrof skuli framkvæmt “skal skýra konu frá áhættu samfara aðgerðinni”.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur að þessari grein skuli breytt eða skýrð betur. Við bendum á að í 39 fylkjum Bandaríkjanna hafa svipuð ákvæði verið lögfest, þar sem heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að lesa upp texta um áhættur þungunarrofs, texta sem í sumum þessara fylkja er misvísandi og jafnvel læknisfræðilega rangur (sjá t.d. grein í bandaríska veftímaritinu Vice: https://broadly.vice.com/en_us/article/nz88gx/a-state-by-state-list-of-the-lies-abortion-doctors-are-forced-to-tell-women).
Stjórn Kvenréttindafélagsins hefur áhyggjur af framkvæmd þessarar greinar. Mun embætti landlæknis setja reglur um hvað konum skuli vera skýrt frá í þessu viðtali, eða er það einstakra heilbrigðisstarfsmanna að meta það hvað skuli sagt og hvað ekki?
Greinargerð Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að í nýjum lögum um þungunarrof skuli vera fallið frá gamla hugtakinu “fóstureyðing” sem er bæði gildishlaðið og villandi og tekið skuli vera upp hugtakið “þungunarrof” sem læknar hafa mælt með.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hvetur til að greinargerð með þessum lögum skuli vera vandlega yfirlesin til að samræmist þessari breytingu á hugtaki. Í umfjöllun um lög um þungunarrof erlendis er orðið “fóstureyðing” ítrekað notað í stað “þungunarrofs”. Við bendum hér sérstaklega á umfjöllun um lög í Danmörku (bls. 6), Noregi (bls. 7), Svíþjóð (bls. 7), Bretland (bls. 8) og Kanada (bls. 8).