Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr 95/2000, með síðari breytingum (fæðingarstyrkur vegna ættleiðingar). Þingskjal 275, 257. mál, 149. löggjafarþing.

19. mars 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands mótmælir harðlega þessu frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi að greiða konum fæðingarstyrk ef þær gefa börn sín til ættleiðingar.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmið þessara laga sé að fjölga börnum sem fædd eru hér á landi sem gefin eru til ættleiðingar, og þau rök lögð fram að það ferli að ættleiða börn erlendis frá sé “langt, kostnaðarsamt og erfitt”.

Hvetur Kvenréttindafélag Íslands til þess að stjórnsýslan beiti sér fyrir því að ættleiðingaferlið hér á landi verði gert mun skilvirkara en nú er og einfaldað til að gera einstaklingum og pörum auðveldara að ættleiða börn sem þurfa á foreldrum að halda.

Með því að greiða konum sérstakan styrk ætli þær sér að gefa barn sitt til ættleiðingar erum við komin hættulega nálægt því að greiða konum fyrir að ganga með barn fyrir aðra, með öðrum orðum að sinna staðgöngumeðgöngu gegn greiðslu. Slík þóknun, þótt hún sé í formi styrks, vinnur gegn frelsi kvenna yfir eigin líkama og setur konur í það hlutverk að líkami þeirra sé til sölu öðrum einstaklingum til handagagns. Kvenréttindafélag Íslands setur sig alfarið á móti því að kvenlíkamanum sé stillt upp sem söluvöru.

Aðrar fréttir