Kvenréttindafélag Íslands skilaði inn umsögn um fyrri útgáfu sama frumvarps þann 17. maí 2012, og lýsti þá yfir almennri ánægju með frumvarp til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála, en lýsti þó einnig yfir þungum áhyggjum yfir því að hvergi í frumvarpinu væru ræddar mótaðar hugmyndir um stækkun og eflingu Jafnréttisstofu og að aukin fjárveiting til hennar væri hvergi tryggð.

Við viljum hér með ítreka þessar áhyggjur. Í öðrum kafla frumvarpsins er greint að stofna skuli STOFNUN sem annast stjórnsýslu á því sviði sem lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, taka til.

Ákvæði V til bráðabirgða tekur fram að þeir starfsmenn Jafnréttisstofu, Fjölmenningaseturs og þeir sem starfa sem réttindagæslumenn við gildistöku laganna verði starfsmenn við hina nýju STOFNUN með óbreyttum starfskjörum. Í athugasemdum við þetta ákvæði (bls. 42) er sérstaklega tekið fram að mikilvægt sé „að sú þekking sem þegar er fyrir hendi glatist ekki við það eitt að ný stofnun sé sett á laggirnar.“

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að tryggt sé að STOFNUN sú sem stofna skuli til að sjá um jafnréttismál hafi bolmagn til að sinna þeim víðtæku skyldum sem útlistaðar eru í frumvarpinu. Í þessu frumvarpi og athugasemdum við það er hvergi rætt um fjárveitingu til þessarar nýju jafnréttisSTOFNUNAR, og engin skýr áætlun er lögð fram um hvernig fjárveitingum hennar skuli háttað svo STOFNUN geti sinnt lögbundnum skyldum sínum af sóma.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að:

a) að fjölga starfsmönnum STOFNUNAR svo þeir séu fleiri en nú starfa á þeim einstöku stofnunum sem sameinast eiga í STOFNUN;

b) að STOFNUN sé staðsett nálægt stjórnsýslu ríkisins í Reykjavík. Nauðsynlegt er fyrir stofnun sem sinnir svo mikilvægum málaflokki sem jafnréttismál eru að vera í mikilli nálægð við þau ráðuneyti, stofnanir, frjáls félagasamtök og aðila vinnumarkaðarins sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu;

c) að tryggja að starfsemi STOFNUNAR sé á landsvísu. Vinnueftirlitið t.d., hefur starfsmenn í níu sveitarfélögum á landinu. Teljum við að starf Jafnréttisstofu sé síst veigaminna en starf Vinnueftirlitsins og hvetjum við til þess að opnaðar verði skrifstofur STOFNUNAR í öllum landsfjórðungum og þar með tryggt að STOFNUN geti sinnt skyldum sínum við eftirlit, fræðslu og upplýsingastarfsemi á landinu öllu. Í athugasemdum við 3. grein í þessu frumvarpi er tekið fram að réttargæslumenn fatlaðra muni starfa út um allt land. Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að STOFNUN gæti ekki einungis að réttindamálum fatlaðra úti á landi, heldur einnig réttindamálum kynjanna, innflytjenda og annarra hópa sem falla undir gildissvið laganna.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir einnig yfir áhyggjum yfir því að ekki sé hlúð nægilega vel að málaflokknum um jafnrétti kynjanna innan STOFNUNAR.

Í 3. grein er farið nánar yfir verkefni þessarar STOFNUNAR, og ljóst er að verkefni hennar og skyldur eru stórar, þungar, margþættar og flóknar. Kvenréttindafélag Íslands telur hættu á því að ef ekki er vel staðið að, þá munu málefni um jafnrétti kynjanna týnast í þessum langa verkefnalista. Við teljum að í frumvarpinu þurfi að styrkja áhersluna á jafnrétti kynjanna, að ítreka að jafnrétti kynjanna verði grunnstoð STOFNUNAR.

Baráttan fyrir kynjajafnrétti er flóknari en svo að hægt sé að stilla henni upp jafnhliða afmarkaðri réttindabaráttu sértækra hópa. Kynjamisrétti snertir allt samfélagið og sker á baráttumál sértækra minnihlutahópa. Kyn hefur þannig óumflýjanlega áhrif á stöðu fólks innan minnihlutahópa. Nauðsynlegt er að beita kynjavinkli alls staðar í almennu jafnréttisstarfi (fatlaðar konur glíma við önnur vandamál en fatlaðir karlar, hommar og lesbíur heyja sitthvora baráttuna, innflytjendur og heimilislaust fólk af sitt hvoru kyni, og svo framvegis).

Vel er þekkt að ólíkir baráttuhópar þurfi að bítast um athygli og fjármagn, og þeir verða oft undir sem ekki eru í „tísku“ hverju sinni. Kvenréttindafélag Íslands vill sjá þetta frumvarp tryggja það að málaflokkurinn um jafnrétti kynjanna verði ávallt veigamikill í starfi STOFNUNAR og tryggt sé að verkefni sem stuðla eiga að réttindum annarra hópa skeri ekki niður á verkefni sem stuðla eiga að jafnri stöðu karla og kvenna.

Í athugasemdum við frumvarpið ríkir meðvitund um hve mörgum þykir óráðlegt að jafna kynjajafnrétti við jafnrétti annarra hópa. Til að koma til móts við þau sjónarmið er tvennt nefnt í frumvarpinu sem á að gæta sérstaklega að kynjajafnrétti: 1) Kynjajafnréttisráð og 2) Kynjajafnréttissjóður. Kvenréttindafélag Íslands telur að þetta tvennt nægi engan veginn til að hlúa að málaflokki kynjajafnréttis innan STOFNUNAR, sérstaklega þegar litið er til starfsemi Jafnréttisráðs og Jafnréttissjóðs síðustu árin.

Jafnréttisráð hefur verið starfandi síðan árið 1976 en hlutverk þess hefur síðustu árin breyst og óljóst er hvaða hlutverki það gegnir í dag, en haldinn var sérstakur hugmyndafundur sumarið 2012 þar sem fulltrúar í Jafnréttisráði ræddu einmitt um sínar óskýru skyldur og verkefni.

Einnig hefur það sýnt sig síðustu árin að Jafnréttissjóður er engan veginn nægilegur til að stuðla að marktækri eflingu á jafnrétti kynjanna. Árið 2013 veitti hann aðeins 5 verkefnum styrki fyrir samtals 9 milljónir, en í heildina var sótt um styrki fyrir alls 37 milljónir það árið. Á árunum 2009-2011 voru ekki veittir styrkir úr sjóðnum vegna bágrar stöðu í ríkisfjármálum. Kynjajafnrétti verður ekki tryggt með nokkrum milljónum á ári til rannsókna, sér í lagi ef einungis eru veittir styrkir á afmörkuðu verkefnasviði vinnumarkaðarins, og enn síður ef þær milljónir fást eingöngu í góðæri. Kynjajafnrétti er ekki skrautfjöður í hatt stjórnvalda sem hægt er að sinna aðeins með afmörkuðum styrkjum þegar vel árar.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að áherslan á jafnrétti kynjanna verði stórefld í þessu frumvarpi.

Einnig vill Kvenréttindafélag Íslands koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins eins og það er lagt fyrir á 143. löggjafarþingi 2013-2014.

1. grein. Gildissvið
Frumvarp til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála nær einnig yfir málefni fatlaðs fólks, en það kemur ekki fram í þessari upphafsgrein frumvarpsins. Þetta bendir til að málaflokkurinn verði jaðarsettur.

3. grein. Hlutverk [STOFNUNAR]
Við ítrekum það að málefni um jafnrétti kynjanna skuli vera skýr og veigamikill þáttur á verkefnalista STOFNUNAR.

18. grein. Hlutverk Kynjajafnréttisráðs
Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir áhyggjum yfir því að hlutverk Kynjajafnréttisráðs sé of víðtækt til að ráðið geti starfað að þeim verkefnum sem því er skylt án þess að til komi stóraukin fjárveiting til ráðsins og að ráðinn verði starfsmaður í fullu starfi til að sinna málefnum og verkefnum Kynjajafnréttisráðs.

Í núverandi frumvarpi er t.d. sagt að Kynjajafnréttisráð skuli „gæta þess að kynjasjónarmið séu samþætt allri stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ríkis og sveitarfélaga“, en ljóst er að þessu verkefni verður ekki sinnt á fundum sem aðeins eru haldnir á mánaðarfresti, en í dag hittist Jafnréttisráð einu sinni í mánuði.

Skilgreina þarf starfsemi Kynjajafnréttisráðs betur og tryggja þarf ráðinu fjármagn, aðstöðu og starfskraft til að Kynjajafnréttisráð geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

19. grein. Kynjajafnréttissjóður
Við ítrekum áhyggjur okkar frá fyrri umsögn, að við teljum að víkka þurfi skilgreint hlutverk Kynjajafnréttissjóðs til að sjóðurinn nýtist til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.

Kynjajafnréttissjóður er lögfestur í 19. grein frumvarpsins, en þar er sagt að styrkir skuli að „meginstefnu“ vera „veittir til rannsókna á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði en einnig á öðrum sviðum samfélagsins.“ Kvenréttindafélag Íslands telur það draga úr vægi Kynjajafnréttissjóðs að skilgreina það sem meginstefnu sjóðsins að styrkja rannsóknir á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ljóst er að þörf er á rannsóknum á stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, ekki aðeins á vinnumarkaði, og því er óhæft að setja þvílíkar skorður á hlutverk Kynjajafnréttissjóðs.

Einnig telur Kvenréttindafélag Íslands að áherslur Kynjajafnréttissjóðs í þessu frumvarpi hafi hamlandi áhrif á baráttu fyrir jafnrétti kynjanna, en sjóðurinn er hér skilgreindur sem „rannsóknarsjóður á sviði jafnréttis kynjanna.“ Teljum við að hlutverk Kynjajafnréttissjóðs ætti ekki að vera einskorðað við að efla rannsóknir á jafnréttissviði, heldur einnig að styrkja starf frjálsra félagasamtaka og til að styrkja sértæk verkefni tengd jafnréttismálum. Frjáls félagasamtök hafa frá upphafi lýðveldisins gegnt lykilhlutverki í baráttunni fyrir jafnrétti og ættu að geta leitað til Kynjajafnréttissjóðs til að styrkja starfsemi sína og/eða verkefni.

20. grein. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna
Í 20. grein laganna er ráðherra gert skylt að leggja fyrir Alþingi, á fjögurra ára fresti, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna „að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, stofnana, STOFNUN og Kynjajafnréttisráðs. Enn fremur skal höfð hliðsjón af umræðum jafnréttisþingsins skv. 13. gr. eftir því sem við getur átt.“

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir áhyggjum yfir því að grasrót jafnréttisbaráttunnar sé hér útilokuð. Teljum við sjálfsagt að ráðherra leiti einnig eftir umsögn frá frjálsum félagasamtökum við gerð framkvæmdaáætlunar um jafnrétti kynjanna. Kvenréttindafélag Íslands telur afar brýnt að tillögur til framkvæmdaáætlana komi einnig frá grasrótinni, en kvenréttindabarátta á Íslandi hefur verið drifin áfram af frjálsum félagasamtökum frá upphafi. Frjáls félagasamtök hafa oft aðra, ekki síður mikilvægari, sýn á þróun mála á Íslandi heldur en ríkisstofnanir, og félagasamtök geta veitt ráðherra betri innsýn í hvaða málefni sé mikilvægt að komist til framkvæmda.

22. grein. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera
Kvenréttindafélagið fagnar því að hlutfall kynjanna skuli tryggt við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. En við hörmum það að ekki skuli tryggð jöfn kynjahlutföll í nefndum sem kosið er í.

Við teljum að þetta ákvæði gangi ekki nógu langt og leggjum til þá viðbót frá því sem fram kemur í gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að ákvæðið gildi jafnframt þegar kosið er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Alþingis, ríkis eða sveitarfélaga þannig að hlutfall kynjanna skuli vera sem jafnast í slíkum tilvikum.

24. grein. Kynjasamþætting
Í 24. grein frumvarpsins segir:„[k]ynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt.“

Kvenréttindafélag Íslands vill slá hér varnagla við óskýru orðalagi. Hvaða stofnunum er gert skylt að gæta kynjasamþættingar við stefnumótun? Og hvaða stofnanir geta hunsað að gæta að kynjasamþættingu? Orðalag líkt og „eftir því sem við getur átt“ er ekki nægilega skýrt og þarfnast frekari útfærslu ef það á að standa í lagabálki jafn mikilvægum og þessum lögum um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála.

Á síðasta ári kom t.d. skýrt í ljós að ein opinber stofnun þarf klárlega að móta stefnu sína upp á nýtt til að gæta að jafnrétti kynjanna, en það er Ríkislögreglustjóri, og reyndar öll lögregluembætti hér á landi, en í skýrslu Finnborgar Salome Steinþórsdóttur, Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar sem birt var í október 2013 kemur í ljós að núverandi stefna lögregluembætta á Íslandi virðist engan veginn stuðla að framgangi kvenna innan lögreglunnar, og jafnvel þvert á móti. Kvenréttindafélag Íslands leggur til að þessi grein frumvarpsins skuli endurskoðuð.

25. grein. Innflytjendaráð
Kvenréttindafélags Íslands fagnar því að sérstaklega er tilgreint að ein manneskja, skipuð af ráðherra í Innflytjendaráð, skuli vera innflytjandi. En við leggjum þó fram alvarlegar efasemdir um fulltrúaskipan ráðsins. Gert er ráð fyrir að aðrir fulltrúar skuli vera starfsmenn ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga og ekki eru gerðar ráðstafanir um að fleiri en einn fulltrúanna skuli vera innflytjandi.

Kvenréttindafélag Íslands telur ótækt að ráð sem stuðli skuli að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur sé aðeins skipað fólki úr opinberum stofnunum. Við krefjumst þess að frjálsum félagasamtökum sé veittur aðgangur að þessu ráði, líkt og gert er í Jafnréttisráði í dag. Við bendum á að í þessu frumvarpi er frjálsum félagasamtökum veittur aðgangur að starfi bæði Kynjajafnréttisráðs og Réttindavaktar fatlaðs fólks.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir einnig yfir áhyggjum yfir því að aðeins eitt sæti í Innflytjendaráði sé bundið innflytjanda. Við teljum að ráð sem skal fara með málefni innflytjenda hér á landi ætti að minnsta kosti að vera skipað til jafns af innflytjendum.

Við teljum einnig mikilvægt að tekið sé fram að fulltrúi í þessari nefnd tali rödd innflytjendakvenna. Þær áskoranir sem konur af erlendum uppruna glíma við eru oft aðrar og sértækari en áskoranirnar sem karlar af erlendum uppruna glíma við. WOMEN in Iceland, samtök kvenna af erlendum uppruna, fögnuðu árið 2013 tíu ára afmæli sínu og væru glæsilegir fulltrúar í þessu ráði.

30. grein. Réttindavakt fatlaðs fólks
Kvenréttindafélag Íslands leggur til að Kvennahreyfingu Öryrkjabandalags Íslands verði veitt sæti í Réttindavakt fatlaðs fólks, en mikilvægt er að rödd fatlaðra kvenna fái að heyrast í þessu ráði. Þær áskoranir sem fatlaðar konur glíma við eru oft aðrar og sértækari en áskoranirnar sem fatlaðir karlar glíma við.

3. mars 2014
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Aðrar fréttir