27. febrúar 2018
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar tillögu til þingsályktunar sem nú liggur fyrir Alþingi um að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta.

Kvenréttindafélagið telur að launamun kynjanna verði ekki útrýmt nema með stórhuga og samstilltum aðgerðum samfélagsins alls. Launamunur hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu ár og allt of hægt hefur gengið að útrýma honum. Stórt skref var tekið í átt að kjarajafnrétti kvenna og karla árið 2017 þegar lög voru samþykkt sem skylda fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri að innleiða jafnlaunastaðalinn og tryggja þar með að konum og körlum sé ekki mismunað í launakjörum innan fyrirtækja. En þetta er þó aðeins eitt skref af mörgum sem við þurfum að stíga í átt til framtíðar þar sem konur og karlar njóta sömu kjara.

Ein af helstu ástæðum langvarandi kynbundins kjaramismunar er sú staðreynd að fólk sem starfar innan starfsgreina þar sem konur eru í meirihluta eru fær að jafnaði lægri laun en fólk sem starfar innan starfsgreina þar sem karlar eru í meirihluta. Við búum því miður enn í samfélagi þar sem kvennastörf eru minna metin en karlastörf, þar sem framlag kvenna til samfélagsins er enn talið minna virði en framlag karla.

Kvenréttindafélagið telur að sú leið sem er valin í þingálsyktunartillögunni, að gera sérstakan kjarasamning um kjör kvennastétta með samkomulagi við alla hagsmunaaðila, sé ákjósanleg leið til þess að minnka launamun kynjanna. Verðmætamatið hefur verið skakkt og það þarf að laga.

Jöfnum kjör kvenna og karla saman, með þjóðarsátt! Kjarajafnrétti STRAX!

Við ljúkum þessari umsögn með því að birta í heild sinni yfirlýsingu baráttufundar kvenna á Austurvelli 24. október 2016:

Kjarajafnrétti STRAX!

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Kvennafrídagurinn vakti verðskuldaða athygli um allan heim.

Árið 1985 var haldið upp á kvennafrídaginn í annað sinn og aftur lögðu 25.000 konur niður vinnu.

Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í þriðja sinn, og konur gengu í tugþúsundatali út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla, kl. 14:08.

Árið 2010 gengu konur út kl. 14:25. Nú ganga konur út kl. 14:38. Við höfum þokast áfram um hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 ár eftir að konur fái sömu laun og sömu kjör og karlar. Það er óþolandi!

Atvinnutekjur kvenna eru að meðaltali 70,3% af atvinnutekjum karla. Störf kvenna eru gróflega vanmetin, vinnumarkaðurinn er kynskiptur, kvennastéttir eru lágt launaðar og launamisrétti fyrirfinnst víða. Konur eru enn í minnihluta í sveitarstjórnum og á Alþingi. Það á líka við í flestum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Karlar ráða ferðinni í stjórnum flestra fyrirtækja í atvinnulífinu og minnihluti framkvæmdastjóra eru konur.

Konur mæta margs konar fordómum á vinnumarkaði. Þær eru hlutgerðar og kynferðisleg áreitni viðgengst of víða. Sífellt ber meira á aldursfordómum í garð kvenna. Konur eru líklegri til að vinna hlutastörf, taka langt fæðingarorlof eða hverfa af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum.

Mörg ný málefni hafa komist á dagskrá í jafnréttisbaráttunni, svo sem ofbeldi gegn konum og samtvinnun misréttis. Margvísleg lög hafa verið sett til að tryggja jafnrétti kynjanna, en lagasetningin ein dugar ekki til að breyta þeirri menningu sem ríkir í samfélaginu. Enn er því verk að vinna.

Á slíkum tímum er samstaða sterkasta vopnið. Konur og karlar sem styðja og vinna að jafnrétti kynjanna þurfa að halda vöku sinni, standa saman og sækja fram.  Við verðum að útrýma launamisrétti og tryggja jafnrétti kvenna og karla til starfa. Við þurfum að tryggja stöðu og bæta kjör kvenna í hvívetna óháð fötlun, aldri, búsetu, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund og lífsskoðun. Við þurfum að lengja og bæta fæðingarorlofið, vinna gegn kynskiptu náms- og starfsvali og breyta heftandi staðalmyndum kynjanna. Við verðum að auka völd kvenna í atvinnulífinu og í stjórnmálum og fjölga konum í Hæstarétti. Við þurfum að uppræta ofbeldi gegn konum, sem hefur hamlandi áhrif á samfélagsþátttöku kvenna. Við þurfum að tryggja kjarajafnrétti strax!

Kröfur okkar eru:

  • Jöfn kjör og jöfn laun STRAX
  • Tryggjum stöðu kvenna og bætum kjör kvenna í hvívetna óháð fötlun, aldri, búsetu, uppruna, litarhætti, kynhneigð, kynvitund og lífsskoðun
  • Lengjum og bætum fæðingarorlofskerfið
  • Upprætum staðalmyndir kynjanna og kynskiptingu vinnumarkaðar
  • Aukum völd kvenna í atvinnulífinu og í stjórnmálum og fjölgum konum í Hæstarétti
  • Upprætum ofbeldi gegn konum