Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir ánægju með og stuðningi við tillögu til þingsályktunar um fjármögnun byggingar nýs Landspítala.
Landspítalinn er ein mikilvægasta stofnun íslensku þjóðarinnar og mikilvægt er að framtíð hans sé tryggð.
Þann 7. júlí 1915 hittust konur á Austurvelli í Reykjavík og fögnuðu kosningarétti kvenna sem hafði verið lögfestur mánuðinn áður. Ingibjörg H. Bjarnason, sem seinna átti eftir að setjast á Alþingi fyrst kvenna, steig þar á stokk og lýsti því yfir að fyrsta málið sem konur með kosningarétt hygðust beita sér fyrir væri stofnun Landspítala.
Í forystugrein Kvennablaðs Bríetar Bjarnhéðinsdóttur 16. ágúst 1915 eru íslenskar konur ávarpaðar:
Öllum ætti að vera það ljóst, hver þjóðarnauðsyn það er, að sem fullkomnastur landspítali verði sem fyrst settur á stofn í höfuðstað landsins. Þar er bestur kostur á læknishjálp og þangað leita árlega sjúklingar úr öllum sveitum landsins, svo hundruðum skiptir, til þess að fá bót meina sinna. Eins og nafn sjóðsins bendir á, viljum vér vinna eftir megni að því að þetta viðurkennda nauðsynjamál komist sem fyrst í framkvæmd, og vér ætlum oss að stuðla að því á tvennan hátt:
Í fyrsta lagi: með því að beita áhrifum vorum um allt land til þess að vekja áhuga landsmanna á þessu máli.
Í öðru lagi: með áðurnefndri sjóðstofnun.
Ekkert mál er betur en þetta fallið til þess að sameina alla þjóðina; þetta mál hlýtur að standa fyrir ofan flokkaskiptingu og skoðanamun. Heitum því máli þessu fylgi voru, eigi aðeins er til kosninga kemur, heldur nú þegar.
Landspítalasjóður Íslands var formlega stofnaður 19. júní 1916, daginn sem konur fögnuðu að ár var liðið frá því að þær fengu kosningarétt.
Hét sjóðurinn fullu nafni „Landsspítalasjóður Íslands til minningar um stjórnmálaréttindi íslenzkra kvenna, fengin 19. júní 1915“. Var Ingibjörg H. Bjarnason kosin formaður sjóðsins og gegndi hún því starfi til dauðadags 1941.
Á næsta ári eru hundrað ár frá því að konur ákváðu að safna fyrir byggingu Landspítala. Það er okkar að tryggja að Landspítalinn geti til frambúðar verið miðstöð þjóðarinnar fyrir framúrskarandi heilbrigðisþjónustu.
6. nóvember 2014
Hallveigarstöðum, Reykjavík