29. september 2015
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (andvanafæðing), þingskjal 25 – 25. mál.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar fram komnu frumvarpi um að jafna skuli rétt foreldra sem eiga andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu og foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu á meðan á fæðingarorlofi stendur og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og greinargerð með því. Um mikilvægt mál er að ræða og vonast Kvenréttindafélagið til þess að frumvarpið verði að lögum.

Það er afstaða Kvenréttindafélagsins að leggjast þurfi í heildarendurskoðun á lögum og fæðingar- og foreldraorlof. Töluverð umræða hefur verið um nýtingu feðra á fæðingarorlofsrétti sínum undanfarið og fram hefur komið að hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof hefur lækkað mikið á undanförnum árum. Haldi sú þróun áfram fer það markmið laganna að stuðla að kynjajafnrétti á vinnumarkaði fyrir lítið, auk þess að það hefur slæm áhrif bæði á feður og börn þeirra að njóta takmarkaðra samvista fyrstu mánuði eftir fæðingu. Kvenréttindafélag Íslands leggur áherslu á að breyta þurfi reglum um hámarksþak á greiðslur úr sjóðnum til að mæta þessari þróun, en meginástæða þess að feður eru hættir að taka orlof í jafn miklum mæli er að heimili ráða ekki við tekjuskerðinguna sem hlýst af því að báðir foreldrar fari í orlof.  Þá telur félagið einnig að lengja þurfi fæðingarorlof til að brúa bilið á milli orlofs og leikskóla eða annarar dagvistunar. Þá er það skoðun Kvenréttindafélagsins að tryggja þurfi jafnan rétt beggja foreldra til fæðingarorlofs, og afnema þann rétt sem foreldrar hafa rétt til að deila sín á milli. Reynslan sýnir að mæður nota þann rétt í mun meira mæli en feður, eðilega, þar sem þær eru bæði að jafna sig eftir fæðinguna og oft með barn á brjósti. Kynin eru því ekki jafn sett þegar kemur að rétti til orlofstöku og telur félagið að það þurfi að leiðrétta. Á vinnumarkaði er enginn annar réttur sem fólki er gert að deila með öðru fólki.

Aðrar fréttir