Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um almenn hegningarlög (kynferðisbrot), þingskjal 261, 241. mál, 151. löggjafarþing.
26. nóvember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík
Kvenréttindafélagi íslands hefur verið sent til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, sem kveður um að í hegningarlög verði bætt við ákvæði svo einnig er refsivert að dreifa barnaníðsefni, ekki aðeins að „afla sér eða öðrum“ eins og stendur í núgildandi ákvæði (210. gr.a). Einnig er í frumvarpinu refsiramminn fyrir varðveislu og dreifingu á barnaníðsefni hækkaður úr tveimur árum í sex.
Kvenréttindafélag Íslands er fylgjandi þessu frumvarpi og hvetur Alþingi til að veita því framgang. Barnaníð er gríðarstórt vandamál og óhindraður straumur slíks efnis efni flæðir um veraldarvefinn, ofbeldi án allra landamæra.
Árið 2019 birti The New York Times vandaða umfjöllun um barnaníð á veraldarvefnum, Exploited, alls fjórar greinar. Í fyrstu grein þeirrar syrpu, „The Internet Is Overrun With Images of Child Sexual Abuse. What Went Wrong?“, fara Michael H. Keller og Gabriel J.X. Dance yfir aukningu á fjölda tilkynninga til bandarískra yfirvalda um barnaníð á netinu. Þar kemur fram að árið 1998 voru 3.000 tilkynningar, árið 2008 voru þær orðnar rúmlega 100.000, árið 2014 voru tilkynningar yfir milljón og árið 2018 bárust yfirvöldum þar í landi 18.4 milljón tilkynningar um barnaníð á netinu. Hið sama ár tilkynntu bandarísk tæknifyrirtæki að þau hefðu fundið 45 milljón myndir og myndbönd af börnum sem beitt eru kynferðislegu ofbeldi, tvöfalt fleiri en þau fundu árið áður („The Internet Is Overrun With Images of Child Sexual Abuse. What Went Wrong?“ í The New York Times, 29. september 2019). Vandamálið er semsagt stórt, og það fer vaxandi frá ári til árs.
Ljóst er að lögreglan á Íslandi þarf aukinn stuðning til að glíma við barnaníðsefni hér á landi og betri og skýrari löggjöf er eitt skref í þá átt. Í langri og ítarlegri umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kompáss sem birtist fyrr í haust er m.a. rætt við Steinarr Kristján Ómarsson yfirmann tölvurannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þar segir hann: „Það er ekki hægt að koma að fullu í veg fyrir þetta, það verður aldrei hægt en við getum reynt að gera hluti svo að þetta minnki. Til dæmis góða refsilöggjöf og góða löggæslu og að heilbrigðiskerfið taki þetta líka til sín. Betri geðheilbrigðisþjónusta fyrir mennina svo sem þeir brjóti ekki af sér aftur og aftur“ („Eins ógeðslegt og þú getur hugsað þér sinnum milljón“ á Vísi.is, 27. október 2020).
Kvenréttindafélag Íslands telur að nauðsynlegt sé að styrkja lögin gegn barnaníðsefni með því að flytja ákvæði þess efnis svo að falli inn í kafla hegningarlaganna sem tekur á ofbeldi gegn börnum. Sem stendur eru ákvæðin tvö um barnaníð, 210.gr. a og b, undirákvæði greinar 210 sem kveður á um bann við framleiðslu innflutning, birtingu og dreifingu á klámi. Ákvæði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sem tekið hefur verið upp á mynd eða filmu á engan veginn heima undir þeirri grein, heldur frekar í þeim kafla hegningarlaganna sem tekur á kynferðisbrotum gegn börnum, greinum 200–202.
Kvenréttindafélag Íslands er fylgjandi þessu frumvarpi sem bannar dreifingu á myndefni sem sýnir barnaníð og hvetur Alþingi til að veita því framgang.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur enn fremur til þess að gr. 210 a um áhorf, vörslu og dreifingu á myndefni sem sýnir barnaníð sem og gr. 210 b sem kveður á um bann við frumkvæði, skipulagningu, eða ávinning af því að ráða barn til að taka þátt í nektar- eða klámsýningu, verði færðar til í hegningarlögunum og verði að grein 203, sem nú liggur laus.