Kvenréttindafélag Íslands hefur sent í eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (barnaníðsefni, hatursorðræða, mismunun o.fl.), þingskjal 1189, 710. mál, 151. löggjafarþing.
29. apríl 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík
Kvenréttindafélagi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á köflum almennu hegningarlaganna nr. 19/140 sem taka á barnaníðsefni, hatursorðræðu og mismunun. Kvenréttindafélag Íslands styður þetta frumvarp í meginatriðum en hvetur þó til eftirfarandi breytinga á lögum gegn barnaníðsefni.
Í b-lið 1. greinar þessa frumvarps er lagt til að hafi brot verið framið í nærveru barns yngra en 15 ára skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingar. Kvenréttindafélag Íslands veltir fyrir sér af hverju að refsihækkun komi aðeins til vegna barna yngri en fimmtán ára en ekki þeirra sem eldri eru, og hvetur að í lögunum sé tekið tillit til skilgreiningar lögræðislaga nr. 71/1997 þar sem skýrt kemur fram að fólk verður lögráða við 18 ára aldurinn.
Kvenréttindafélag Íslands telur að nauðsynlegt sé að styrkja lögin gegn barnaníðsefni með því að flytja ákvæði þess efnis svo að falli inn í kafla hegningarlaganna sem tekur á ofbeldi gegn börnum. Sem stendur eru ákvæði um barnaníð sett sem undirákvæði greinar 210 sem kveður á um bann við framleiðslu, innflutning, birtingu og dreifingu á klámi. Ákvæði myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt teljum við ekki eiga heima undir þeirri grein, heldur frekar í þeim kafla hegningarlaganna sem tekur á kynferðisbrotum gegn börnum, greinum 200–204.
Kvenréttindafélag Íslands er fylgjandi þessu frumvarpi sem bannar dreifingu á myndefni sem sýnir barnaníð og hvetur Alþingi til að veita því framgang.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur að í b lið 1. greinar þessa frumvarps um refsihækkun brota verði aldursákvæði 15 ár breytt í 18 ár.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur enn fremur til þess 3. grein þessa frumvarps taki einnig til endurröðunar á köflum í almennu hegningarlögunum svo að ákvæði gegn myndefni sem sýni barnaníð verði fært inn í kafla hegningarlaganna sem tekur á kynferðisbrotum gegn börnum. Það er að gr. 210a um áhorf, vörslu og dreifingu á myndefni sem sýnir barnaníð, gr. 210b sem kveður á um bann við frumkvæði, skipulagningu, eða ávinning af því að ráða barn til að taka þátt í nektar- eða klámsýningu; og gr. 210c sem tekur á hækkun refsingar fyrir brotum á gr. 210a og 210b verði færðar til í hegningarlögunum. Bendum við á að grein 203 liggur nú laus í almennu hegningarlögum nr. 19/1940, og er sú grein í þeim kafla laganna sem tekur á kynferðisbrotum gegn börnum.