Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísunartilskipunin, dvalar- og atvinnuleyfi), þingskjal 1228, 717. mál, 150. löggjafarþing.


2. júní 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir orðrétt að frumvarpið geri „ekki greinarmun á kynjum eða tekur kyn til skoðunar og því hvorki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.“ Kvenréttindafélag Íslands mótmælir þessum vinnubrögðum, að jafnréttismat á frumvarpinu hafi ekki verið framkvæmt. 

Í 1. grein jafnréttislaga nr. 10/2008 segir að jafna eigi stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagins með því að „gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagins“. Þetta þýðir m.a. að við alla áætlanagerð, stefnumótun og gerð lagafrumvarpa þurfi að taka til greina ólíka stöðu kynjanna og móta verkefni þannig að þau auki réttlæti og kynjajafnrétti. 

Kvenréttindafélag Íslands tekur það fram að lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga hafa ólík áhrif á kynin. Allar breytingar á löggjöf sem þessari, sem skilyrðir rétt fólks til að dvelja og lifa hér á landi, hafa í eðli sínu djúpstæð áhrif á grundvallaréttarstöðu fólks á Íslandi. Því eykst byrði stjórnvalda að framkvæma ítarlega greiningu á áhrifum frumvarpsins á allt fólk sem falla undir lögin, þar á meðal á ólíkum áhrifum frumvarpsins á öll kyn.

Samkvæmt innleiðingaráætlun um kynjaða fjárlagagerð samþykkt í ríkisstjórn 19. júní 2015 var hverju ráðuneyti gert skylt framkvæma jafnréttismat á frumvörpum „sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna“, og átti frá og með 2019 kynjagreining að fylgja öllum þeim frumvörpum. Í handbók Jafnréttisstofu Jafnréttismat frá árinu 2014 er að finna gátlista til að greina hvort þörf sé á jafnréttismati á frumvörpum. Þar er fyrst spurt hvort að lögin muni koma til með að hafa „áhrif á líf fólks“ og hvort að „munur sé á stöðu karla og kvenna í málaflokknum“. Kvenréttindafélag Íslands telur augljóst að breytingar á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga muni koma til með að hafa mikil áhrif á líf fólks og að munur sé á stöðu karla og kvenna í málaflokknum. Þörfin á að framkvæma jafnréttismat í þessu tilviki ætti því að vera augljós.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi að kalla eftir ítarlegu jafnréttismati á áhrifum frumvarpsins á öll kynin áður en það tekur frumvarpið til umræðu.

UN Women á Íslandi sendi inn umsögn 28. maí síðastliðinn um þetta frumvarp og bendir á að staða kvenna á flótta sé „sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem hættunni á kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi.“ 

UN Women á Íslandi bendir á að ein af hverjum fimm konum á flótta hefur þurft að þola kynferðislegt ofbeldi; að 60% kvenna í heiminum sem deyja á meðgöngu eða af barnsburði deyi á átakasvæðum; að konur og börn séu fjórtán sinnum líklegri til að deyja við slíka neyð; að stelpur séu rúmlega helmingi líklegri til að detta úr námi; og að konum sé yfirleitt haldið utan við ákvarðanatökur í neyð og á átakasvæðum og að þarfir almennings séu þar af leiðandi greindar fyrst og fremst út frá þörfum karla.

Kvenréttindafélag Íslands tekur undir umsögn UN Women á Íslandi og leggst gegn breytingartillögum sem skerða vernd fólks á flótta. 

Tekur Kvenréttindafélag Íslands enn fremur undir með UN Women á Íslandi og hvetur Alþingi til að tryggja að jafnréttissjónarmið sé haft að leiðarljósi í lögum um útlendinga og móttöku flóttafólks.

Ísland hefur í ellefu ár í röð verið í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum. Þetta er mikill heiður, en þessari viðurkenningu fylgir líka ábyrgð. Samkvæmt skýrslu ráðsins mun það taka tæpa öld að ná fram kynjajafnrétti í heiminum ef fram fer sem horfir. 

Kvenréttindafélags Íslands skorar á stjórnvöld að láta ekki sitt eftir liggja í jafnréttismálum og að sýna viljann í verki með því að fara eftir eigin reglum og samþykktum verkferlum sem tryggja eiga jafnrétti. 

Aðrar fréttir