Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum (ákvörðun réttindahlutfalls örorkulífeyris).

Hallveigarstöðum, Reykjavík
27. maí 2019

Nú liggur fyrir í samráðsgátt Stjórnarráðsins frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar, þar sem staðfest er í lögum sú meginregla að örorkulífeyrir almannatrygginga skuli lækka hlutfallslega til samræmis við lengd búsetutíma erlendis. Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir áhyggjum af þessari fyrirhuguðu lagabreytingu, og telur bagalegt að þar sé fest í lög skerðing á réttindum fólks, ekki síst kvenna.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir áhyggjum af mismunun sem þarna á sér stað, að réttindi öryrkja sem hafa búið erlendis skerðist þannig að greiðslur til þeirra verði lægri en til öryrkja sem ávallt hafa búið á Íslandi. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017 við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur kemur fram að 1.330 einstaklingar fá skertar örorkugreiðslur frá Tryggingastofnun vegna þess að þeir hafa verið búsettir erlendis, og þar af fá 1.099 engar lífeyrisgreiðslur frá fyrra búsetulandi, til að vega upp á móti tekjuskerðingu sem verður til vegna skertra réttinda hér á landi (þingskjal 1167, 580. mál). Sú skerðing sem gerð er á örorkubótum á grundvelli búsetu er því í langflestum tilvikum ekki bætt upp með greiðslum erlendis frá. Er ljóst að töluverður munur er á kjörum öryrkja á Íslandi eftir því hvort þeir hafa verið búsettir erlendis eður ei. Þetta er mismunun sem ætti ekki að eiga sér stað í landi sem býr við mikla velmegun og byggir lög sín á manngæsku og jafnrétti.

Mun fleiri konur en karlar eru greindar með 75% örorku- og endurhæfingarmat skv. tölum frá Tryggingastofnun frá janúar 2019, 13.223 konur en 8.541 karlar. Mikilvægt er að stjórnvöld tryggi hag kvenna og karla sem eru á örorkulífeyri og tryggi það að fólk geti lifað mannsæmandi lífi á örorkubótum. Þetta er réttur sem er ekki aðeins er sjálfsagður heldur einnig staðfestur í stjórnarskrá landsins og alþjóðlegum mannréttindasamningum.

Kvenréttindafélag Íslands gerir athugasemdir við hve stuttur tími var gefinn til umsagnar við drög að þessu frumvarpi í samráðsgáttinni, aðeins ein vika, og hvetur til að vandað sé til verka og frumvarpið unnið í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Í því sambandi er sérstaklega bent á Öryrkjabandalag Íslands og minnt á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem kveðið er á um að þeir sem taka ákvarðanir sem hafa bein eða óbein áhrif á fatlað fólk skuli hafa náið samráð við fatlað fólk og samtök þess í gegnum allt ferli ákvarðanatöku.