Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði). Þingskjal 205, 204. mál, 151. löggjafarþing.
5. nóvember 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands styður þetta frumvarp til laga um breytingu á barnalögum sem bætir við nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Breytingarnar miða að því að tryggja réttindi foreldra sem breytt hafa skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum.
Í stefnuskrá Kvenréttindafélagsins segir:
Við höfum öll grundvallarrétt til lífs og líkama. Kvenréttindafélag Íslands beitir sér fyrir því að tryggja ákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama.
Þetta frumvarp er skref í átt til þess að tryggja þennan grundvallarrétt til lífs og líkama, skref í áttina að tryggja sjálfsákvörðunarrétt kynjanna allra yfir eigin líkama.