Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum nr. 31/1993. Þingskjal 174, 172. mál, 152. löggjafarþing.
Hallveigarstaðir, Reykjavík
8. febrúar 2022
Kvenréttindafélag Íslands styður þetta frumvarp sem ætlað er að auðvelda þolendum ofbeldis í sambandi að leita skilnaðar. Í frumvarpinu er lögskilnaður einfaldaður bæði ef hjón eru ekki einhuga um að leita hans og ef þau eru sammála um það, þolendum verði gert auðveldara að leita lögskilnaðar á grundvelli heimilisofbeldis og sáttaumleitan verði færð í form samtals um forsjá barna.
Í rannsókn sem unnin var af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd fyrir félags- og tryggingarmálaráðuneytið árið 2010, sögðust rúmlega 22% kvenna á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri.
Í núgildandi lögum getur annað hjóna krafist lögskilnaðar ef hitt verður uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti sem bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim, ef verknaður er framinn af ásettu ráði og valdi tjóni á líkama eða heilbrigði þess sem fyrir verður. Tímatakmörk eru sett á að krefjast skilnaðar á grundvelli þessa ofbeldis, sex mánuðir frá því að maka var kunnugt um verknaðinn og eigi síðar en innan við tveggja ára frá því að hann var framinn.
Í greinargerð með þessu frumvarpi benda flutningsmenn réttilega á að núgildandi löggjöf gerir erfitt fyrir þolendur heimilisofbeldis öðlast lögskilnað. Í fyrsta lagi er heimilisofbeldi of þröngt skilgreint í lögunum, einungis sem líkamsárás eða kynferðisbrot; í öðru lagi eru tímatakmörk frá broti sett á þolanda til að sækja sér lögskilnað; og í þriðja lagi ef gerandi samþykki að óska skilnaðar á grundvelli brota sinna, sem flutningsmenn benda á að sé þrengri heimild en til að dæma menn fyrir sambærileg brot þar sem ekki er gerð krafa um skýlausa játningu sakbornings og samþykki hans fyrir dómi.
Flutningsmenn hafa leitað víðtæks samráðs við samtök og fólk vinnslu frumvarpsins, þar á meðal sérfræðinga frá Kvennaathvarfinu og við þolendur heimilisofbeldis sem hafa reynt að öðlast lögskilnað á grundvelli núgildandi laga. Í samráðsferlinu varð ljóst að margar konur hafa þurft að lengja dvöl sína í Kvennaathvarfinu vegna þess að þar til skilnaður er genginn í gegn eiga þær ekki rétt á fjárhagslegum stuðningi, fullum barnabótum og annarri félagsaðstoð sem þær ættu rétt á væru þær skráðar einstæðar mæður. Í samráðinu kom einnig fram að fjölmörg dæmi eru um að ofbeldismenn hamli skilnaði með því að misnota sáttaferli hjá sýslumanni sem á að kveða á um forsjá barna og opinber skipti eigna.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi eindregið til að samþykkja þetta frumvarp um breytingu á hjúskaparlögum.