Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (breytt aldursviðmið). 151. löggjafarþing 2020–2021. Þingskjal 20, 20. mál.
29. október 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands styður frumvarp til laga sem kveður á um að sjálfstæður réttur til að breyta skráningu kyns og breytingu á nafni miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára eins og er í dag. Í frumvarpinu er tryggt að ákvarðanir fólks á aldrinum 15-18 á þessu sviði séu afturkræfanlegar, að eigin ósk. Í lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 eru skorður við því að kyn- og nafnskráningu sé breytt oftar en einu sinni, en í frumvarpinu er lagt til að einstaklingar undir 18 ára aldri verði undanþegnir þessum takmörkunum.
Í stefnuskrá Kvenréttindafélagsins segir:
Við höfum öll grundvallarrétt til lífs og líkama. Kvenréttindafélag Íslands beitir sér fyrir því að tryggja ákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama.
Þetta frumvarp er skref í átt til þess að tryggja þennan grundvallarrétt til lífs og líkama, skref í áttina að tryggja sjálfsákvörðunarrétt kynjanna allra yfir eigin líkama.