Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum. 153. löggjafarþing 2022-2023, þingskjal 166, 165. mál.
Frumvarpið var áður lagt fram á 138., 141., 144., 145. og 146. löggjafarþingi (119.mál) og er lagt fram á 153. löggjafarþingi nær óbreytt. Kvenréttindafélag Íslands skilaði inn umsögn um frumvarpið 6. mars 2015 og 24. mars 2017, en þá skilaði félagið inn efnislega sömu umsögn og 2015. Þar sem frumvarpið er enn efnislega óbreytt sendir Kvenréttindafélag Íslands efnislega inn sömu umsögn í þriðja skiptið.
Hallveigarstaðir, Reykjavík
23. mars 2023
Kvenréttindafélag íslands skilaði inn umsögn um þetta frumvarp 6. mars 2015, og 24. mars 2017 þegar það var áður lagt fram á Alþingi. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, og því skilum við hér með efnislega sömu umsögn um frumvarpið.
Stjórn Kvenréttindafélags íslands er í grundvallaratriðum sammála því að afnema lög um orlof húsmæðra í núverandi mynd.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan lögin voru sett og þótt enn sé langt í land að jafnrétti kynja sé náð, ekki síst með tilliti til efnahags og kaupgetu, þá er staða kvenna á vinnumarkaði sem og staða karla innan heimilanna gjörbreytt frá þeim tíma sem lögin voru sett.
Kvenréttindafélag íslands leggst þó gegn því að lög lík þeim sem hér um ræðir, lög sem tryggja ákveðin réttindi kvenna, séu afnumin án þess að gert sé ráð fyrir því að þeir fjármunir sem sparast með afnámi laganna verði nýttir áfram í þágu kvenna og í þágu jafnréttis kynjanna.
Meginábyrgð á rekstri heimila hvílir enn á herðum kvenna og konur taka sér, mun frekar en karlar, hlé frá launuðum störfum til að sinna heimili og fjölskyldu. Þá er launamunur kynja enn staðreynd og afar hægt þokast í átt að því að sá munur hverfi. Staðreyndin er því sú að ævilaun kvenna, og þar af leiðandi lífeyrisréttindi þeirra, eru mun lægri en karla.
Þetta ójafnvægi mætti leiðrétta að hluta með því að tryggja heimavinnandi einstaklingum rétt til lífeyristöku, en konur eru yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem eru heimavinnandi.
Kvenréttindafélag íslands leggur til að samhliða afnámi laga um orlof húsmæðra verði sett á lög um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Þeim fjármunum sem sveitarfélögin hafa hingað til veitt til orlofs húsmæðra, 100 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins, verði ráðstafað þannig að einstaklingar sem ekki hafa aflað sér lífeyrisréttinda á almennum vinnumarkaði heldur sinnt ólaunuðu starfi innan heimilis við umönnun barna eða annarra fjölskyldumeðlima eigi rétt á lífeyri umfram lágmarkstryggingu þegar lífeyrisaldri er náð.