Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um drög að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði, mál nr. S-42/2019.

18. febrúar 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands styður drög að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði.

Í stefnuskrá Kvenréttindafélagsins segir:

Við höfum öll grundvallarrétt til lífs og líkama. Kvenréttindafélag Íslands beitir sér fyrir því að tryggja ákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama.

Þetta frumvarp er stórt skref í að tryggja þennan grundvallarrétt til lífs og líkama, stórt skref í áttina að tryggja sjálfsákvörðunarrétt kynjanna allra yfir eigin líkama.

Mikilvægt er að stuðla að öryggi kvenna og annara minnihlutahópa í hvívetna og sjá til þess að þjónustuaðilar séu í stakk búnir að takast á við mál er varða fjölbreytileika kyns. Þar má sérstaklega nefna kvennaathvörf eða aðra þjónustu við konur. Það er því mikilvægt að efld sé fræðsla til þjónustuaðila sem veita konum þjónustu eða stofnunum sem hýsa konur til þess að hægt sé að taka á málum er varðar fjölbreytileika kyns á faglegan hátt. Mikilvægt er að hjá þjónustuaðilum sé til staðar þekking sem getur tryggt öryggi og aðgengi allra kvenna að þjónustu sem þær þurfa á að halda og að stjórnvöld styrki þjónustuaðila til að standa að þessari fræðslu til starfsfólks síns. Rannsóknir sýna að trans fólk verður í ríkum mæli fyrir heimilis- og kynferðisofbeldi og er mikilvægt að tryggja aðgang þeirra og á sama tíma tryggja öryggi allra sem nýta sér þjónustuna.

Frumvarpið ber þess merki að skilningur samfélagsins á kynjakerfinu og fjölbreytileika kynverundar hefur stóraukist síðustu árin. Kvenréttindafélagið telur þó nauðsynlegt að stjórnvöld skerpi til muna fræðslu í kynjafræði. Aðeins með markvissri fræðslu í jafnrétti og kynjafræði ráðumst við á rót kynjamisréttis í samfélaginu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum, leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Kynjafræði ætti að kenna sem sérstaka námsgrein, auk þess að kennsla og námsefni í öðrum fögum skulu vera skipulögð á grundvelli jafnréttis. Ennfremur hvetjum við til að kynjafræði verði gerð að skyldufagi í kennaraháskólum.

Aðrar fréttir