Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Eru annars vegar lagðar til breytingar á íslenskum refsiákvæðum sem eru nauðsynlegar svo Ísland geti fullgilt samning Evrópuráðsins frá árinu 2011 um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum. Hins vegar er lagt til að sérstakt ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum (heimilisofbeldi) verði sett í almenn hegningarlög. Lesið drögin að frumvarpinu hér.

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn:


Hallveigarstöðum, Reykjavík
16. október 2015

Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um drög að frumvarpi til laga um breytingar á almennum hegningarlögum (Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum o.fl.)

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að vinna við fullgildingu Istanbúls-samningsins sé komin langt og því að umrædd drög að frumvarpi séu komin fram. Heimilisofbeldi er stórt vandamál á Íslandi og löggjöfin hingað til hefur ekki verið til þess fallin að ná utan um það. Verði þessar tillögur að lögum yrði að mati Kvenréttindafélagsins stigið stórt skref í baráttunni gegn heimilisofbeldi og öðru ofbeldi sem fjallað er um í frumvarpinu, svo sem nauðungarhjónaböndum.

Kvenréttindafélag Íslands gerir ekki efnislegar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins en vonast til þess að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi sem allra fyrst og verði að lögum.

Aðrar fréttir