Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn eftirfarandi umsögn um drög að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar.
Hallveigarstaðir, Reykjavík
23. ágúst 2021
Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir ánægju með drögum að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Þó teljum við bagalegt að ekki sé einu orði minnst á jafnrétti í þessari áætlun, sem ætti þó að vera undirstaðan að öllu lýðræði hér á landi.
Hvetjum við Reykjavíkurborg til að tryggja það að í lýðræðisstefnu borgarinnar sé jafnrétti og kvenfrelsi grundvöllur að lýðræðisstarfi Reykjavíkurborgar.
Gerum við einnig eftirfarandi tillögur til úrbóta í þeim drögum sem nú liggja til umsagnar.
Aðgerð 2: Útgáfa á námsefni á íslensku og ensku.
Í þessari aðgerð er gert ráð fyrir að gefið verði út námsefni á íslensku og ensku sem fjallar um mikilvægi þessi að vera virkur í samfélagi með yfirferð yfir ýmis tækifæri til þátttöku.
Kvenréttindafélag Íslands leggur til að þetta námsefni verði líka gefið út á pólsku, sem er tungumál sem stór hópur barna af erlendum uppruna hefur að móðurmáli. Félagið leggur enn fremur til að námsefnið verði bæði gefið út á prenti til kennslu í skólum Reykjavíkur sem og í opnum aðgangi á vefsvæði Reykjavíkurborgar, þá gagnvirkt, til að auka dreifingu á efninu.
Baráttan fyrir kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna hefur verið drifin áfram af grasrótarsamtökum femínista. Kvenréttindafélagið áréttar mikilvægi frjálsra félagasamtaka í lýðræðisbaráttunni og hvetur til þess að í þessari aðgerð sé unga fólkinu í Reykjavík kynnt leiðir til að hafa áhrif í frjálsum félagasamtökum hér á landi svo og hljóti fræðslu í hvernig þau geti stofnað og skipulagt sín eigin lýðræðisleg félagassamtök.
Aðgerð 3: Útgáfa á fræðslumyndbandi á íslensku og ensku um leiðir til lýðræðislegrar þátttöku.
Í þessari aðgerð er gert ráð fyrir að gefið verði út myndband til að kynna lýðræði og leiðir til þátttöku á myndrænan og aðgengilegan hátt til að birta á samfélagsmiðlum og vefsíðum.
Kvenréttindafélag Íslands leggur til að í stað þess að gert sé eitt langt myndband, verði gefin út nokkur stutt myndskeið. Af gefinni reynslu, þá er áhorf á löng kynningarmyndbönd á netinu ekki sérlega löng, og dreifing á þessu efni er líklegri ef þau eru sett upp í örstutt form þar sem hvert myndskeið tekur á hnyttinn hátt á einu afmörkuðu efni í námsefninu. Áhugasöm geta svo farið frá myndskeiðinu í námsefnið sjálft og lært meira.