7. nóvember 2017
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélagi Íslands hefur borist til umsagnar drög að reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85 (mál VEL17100005).

Kvenréttindafélagið hvetur til þess að í þessari reglugerð sé gagnsæi framkvæmdar vottunar tryggt og að vottunarferlið og gögnin sem jafnlaunavottunin byggir á, þ.á.m. mat á störfum, verði skýr og aðgengileg starfsfólki fyrirtækja sem undir lögin falla. Mikilvægt er að starfsfólk skilji hvernig jafnlaunastaðallinn og ferli vottunar virkar og tryggja verður að fyrirtækjum, stéttarfélögum og öðrum aðilum sé heimilt að miðla þeim upplýsingum sem þau fá áfram til starfsfólks.

Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að vottunaraðili skili skýrslu til Jafnréttisstofu um niðurstöðu úttektar hvort sem úttekt leiðir til vottunar eður ei. Ekki er gerðar skýrar kröfur um hvað þurfi að koma fram í þessari skýrslu í reglugerðinni og hvetur Kvenréttindafélagið að skýrt sé hvaða upplýsingar um innleiðingarferlið eigi að koma fram í skýrslunni og að þær þurfi að vera skilmerkilegar og gagnsæjar.

Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi aðgang að þessari skýrslu ef úttekt leiðir ekki til vottunar, en ekki ef úttekt leiðir til vottunar. Kvenréttindafélagið leggur til að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi einnig aðgang að skýrslum ef úttekt leiðir til vottunar. Einnig leggur Kvenréttindafélagið til að starfsfólki viðkomandi fyrirtækis sé heimilt að fá aðgang að þessari skýrslu um úttekt hvort sem úttekt leiðir til vottunar eður ei. Leggjum við því til að skýru orðalagi um þessi atriði verði bætt við 7. gr. reglugerðarinnar.

Kvenréttindafélag Íslands leggur áherslu á að það verkefni að innleiða jafnlaunastaðalinn hjá fyrirtækjum og stofnunum með 25 eða fleiri starfsmenn er gríðarlega stórt og mikilvægt er að vel takist til. Kvenréttindafélagið leggur áherslu á að Jafnréttisstofu sé tryggður sá mannafli sem nauðsynlegur er vegna þeirra viðbótarverkefna sem jafnlaunavottunin færir stofnuninni