Kvenréttindafélags Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum. 149. löggjafarþing 2018–2019, þingskjal 25 – 25. mál.

29. október 2018
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við breytingu á þeim lögum sem tilgreind eru í frumvarpinu til þess að jafna stöðu forsjárforeldra með því að heimila lögheimilisskráningu barna hjá báðum foreldrum.

Kvenréttindafélag Íslands lítur svo á að um jafnréttismál sé að ræða, bæði fyrir börn og foreldra. Meginreglan í íslenskum rétti er sameiginleg forsjá og afar algengt er að börn eigi heimili hjá báðum foreldrum, til jafns eða með öðrum hætti. Slík framkvæmd hefur verið algeng síðustu ár og áratugi en þrátt fyrir sameiginlega forsjá hefur t.d. réttur til barnabóta og réttur til að taka ýmsar ákvarðanir sem varða barn einskorðast við það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá. Telja verður að það sé gott einkenni á íslensku samfélagi að sameiginleg forsjá eftir skilnað sé meginregla og við styðjum samfélag þar sem komið er til móts þarfir sem skapast þegar börn eru búsett hjá báðum foreldrum með sem víðtækustum hætti. Við teljum frumvarp þetta vera jákvætt skref og mælum með því að það verði að lögum. Við gerum ekki athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.