Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Mál nr. 195/2020, félagsmálaráðuneytið.


 

 

 

30. september 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar framkomnu frumvarpi sem kveður á um lengingu fæðingar- og foreldra orlofs í tólf mánuði og jafnan rétt foreldra til þessa orlofs.

Í frumvarpinu er sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengdur í sex mánuði úr fjórum, þar af einn mánuður framseljanlegur. Þessi lenging á fæðingarorlofinu er löngu tímabær og er mikill stuðningur fyrir fjölskyldur á landinu.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um lengingu réttar til fæðingarstyrks vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu, þannig að hvort foreldri um sig mun öðlast sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í tvo mánuði í staðinn fyrir sameiginlegan rétt í tvo mánuði líkt og kveðið er á um í núgildandi lögum.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar sérstaklega að í frumvarpinu sé réttinum til fæðingar- og foreldraorlofs deilt jafnt á milli foreldra, réttarbót sem mun stuðla að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi.

Kvenréttindafélagið er í megindráttum fylgjandi þessu frumvarpi, en vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við einstakar greinar.

7. grein – réttur foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingarorlofs

Í 7. grein er gert ráð fyrir þrengingu tímamarkanna sem foreldrar geta tekið fæðingarorlof. Í núgildandi löggjöf þurfa foreldrar að taka fæðingarorlof innan 24 mánaða, en í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að sá tími styttist í 18 mánuði.

Kvenréttindafélag Íslands leggst gegn þessari breytingu og hvetur til þess að takmörk verði aftur færð í 24 mánuði. Í skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði frá árinu 2017 kemur í ljós að rúmlega helmingur landsmanna býr í sveitarfélögum þar sem inntökualdur barna á leikskóla er 24 mánaða. Nauðsynlegt er að foreldrar hafi svigrúm til að taka fæðingarorlof á þessum 24 mánuðum á meðan öllum börnum er ekki tryggð dagvistun.

Kvenréttindafélag Íslands ítrekar enn og aftur að nauðsynlegt sé að brúa bilið á milli þess þegar fæðingar- og foreldraorlofi lýkur og þegar daggæsla barna er tryggð. Jafnvel eftir þá lengingu fæðingar- og foreldraorlofs sem um ræðir í þessu frumvarpi, stendur eftir eitt ár sem foreldrar hafa ekki tryggða daggæslu, og 17 mánuðir fyrir suma einstæða foreldra. Ísland er eina Norðurlandið þar sem börn hafa ekki lögbundinn rétt til dagvistunar. Áríðandi er að við innleiðum lög um dagvist og tryggjum fjármögnun fyrir dagvistun allra barna óháð hjúskaparstöðu foreldra frá þeim tíma þegar fæðingarorlofsrétti lýkur.

36. grein – greiðsla fæðingarstyrks

Í 36. grein frumvarpsins kemur fram að fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi skal vera 59.137 kr. á mánuði og fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi skal vera 135.525 kr. á mánuði.

Kvenréttindafélag Íslands telur að þessar upphæðir séu alltof lágar fyrir foreldra utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða í fullu námi. Erfitt er að sjá fyrir sér að foreldrar í þessari stöðu geti framfleytt sér og börnum sínum á svona lágum fæðingarstyrk. Einnig setur félagið varnagla að upphæð styrksins skuli tilgreind í lagagreininni.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að styrkja stöðu foreldra í námi og utan vinnumarkaðar og í minna en 25% starfi með því að hækka fæðingarstyrkinn, og líta þá til útreikninga t.d. LÍN um grunnframfærslu fólks með börn eða útreikninga atvinnuleysisbóta.

Fólk með kynhlutlausa skráningu og lög um fæðingar- og foreldraorlof

Kvenréttindafélag Íslands veltir fyrir sér hvort að frumvarpið hafi verið yfirfarið með tilsjón af ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019, þar sem fólki er gert heimilt að hafa hlutlausa skráningu kyns.

Í einstökum greinum frumvarpsins, svo sem í 15. grein um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum og 16. grein um veikindi móður á meðgöngu, er sérstaklega rætt um “þungaðar konur” og réttindi þeirra á vinnustöðum og á vinnumarkaði. Fólk með kynhlutlausa skráningu gengur einnig með börn, ekki aðeins konur. Kvenréttindafélag Íslands veltir fyrir sér hvort að nauðsynlegt sé að styrkja þær greinar í frumvarpinu sem ræða um réttindi þungaðra kvenna svo að ljóst er að eigi við allt fólk sem gangi með börn.

Jafnréttismat vantar á áhrifum frumvarpsins

Samkvæmt innleiðingaráætlun um kynjaða fjárlagagerð samþykkt í ríkisstjórn 19. júní 2015 var hverju ráðuneyti gert skylt að framkvæma jafnréttismat á frumvörpum „sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna“, og átti frá og með 2019 kynjagreining að fylgja öllum þeim frumvörpum. Kvenréttindafélag Íslands telur augljóst að lög um fæðingar- og foreldraorlof muni koma til með að hafa mikil áhrif á stöðu kynjanna. Þörfin á að framkvæma jafnréttismat í þessu tilviki ætti því að vera augljós.

Kvenréttindafélag Íslands kallar eftir ítarlegu jafnréttismati á áhrifum frumvarpsins á öll kynin áður en frumvarpið er sent til umræðu á Alþingi.