Umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 151. löggjafarþing 2020–2021. Þingskjal 14,  14. mál.


29. október 2020
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessu frumvarpi til endurskoðunar laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, endurskoðun sem er löngu tímabær.

Kvenréttindafélag Íslands tók til umsagnar lög nr. 10/2008, jafnréttislög, í heild sinni að ósk stjórnvalda og sendi inn umsögn 28. febrúar 2018. Kvenréttindafélagið átti fulltrúa í fjórum starfshópum sem skipaðir voru haustið 2019 til að vinna að endurskoðun núgildandi jafnréttislaga. Hóparnir tóku ekki þátt í að móta þá lokagerð sem er til umsagnar hér.

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því sérstaklega að í lögunum er tekið tillit til allra kynja og að nýju lögin taki til stöðu kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Þetta frumvarp tekur tillit til þróunar í jafnréttismálum og útvíkkun á skilningi okkar á kyni og kynverund. Félagið fagnar einnig að meðfram þessari útvíkkun á gildissviði laganna, sé í einstaka greinum ennþá lögð sérstök áhersla á að vernda stöðu kvenna og kvenréttindi, svo sem í 4. grein sem kveður á um að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla innan fyrirtækis síns eða stofnunar og að sérstök áhersla skuli lögð á að jafna hlut kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum, eða í 4. mgr. 28. gr. sem kveður á um að hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera skuli aldrei vera minna en 40%. Þar sem enn hallar á konur á öllum sviðum samfélagsins er nauðsynlegt að í kynjajafnréttislögum skuli staða kvenna sérstaklega tryggð.

Einnig fagnar Kvenréttindafélagið því að í lögunum sé nú tekið á fjölþættri mismunun, að það sé skýrt tekið fram að nemendur á öllum skólastigum skulu hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi og því að stjórnvöld skuli kalla saman samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti tvisvar á ári, þar af einu sinni með jafnréttisráðherra.

Kvenréttindafélag Íslands er í megindráttum sammála drögum að frumvarpi um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en hefur þó eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.

Kvenréttindafélagið telur þannig mikilvægt að kveða á um forgangsrétt jafnréttislaga, þ.e. að þau gildi um öll svið stjórnsýslunnar og ríkisvalds (og víðar ef það á við) og að þau gangi framar öðrum lögum. Það má t.d rifja upp að þegar skipað var í hæfisnefnd um skipan dómara 2010 að Lögmannafélagið taldi sér ekki skylt að fylgja ákvæðum jafnréttislaga um jafnt kynjahlutfall í nefndum og ráðum. Rökstuðningur LFMÍ var á þá leið að sérlög um skipan dómsvalds gengju framar jafnréttislögum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að það verði skýrt að jafnréttislög hafi forgangsrétt.

Kvenréttindafélag Íslands minnir á að 10. mars 2016 skilaði nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum tilmælum til íslenskra stjórnvalda um hvað betur má fara í jafnréttismálum hér á landi (sjá: CEDAW: Concluding observations on the combined seventh and eight periodic reports of Iceland, 2016. Hér eftir nefnt CEDAW/C/ISL/CO/7-8). Nefndin bendir á vankanta í íslenskri löggjöf til að uppfylla alþjóðlega sáttmála og samninga, þ.á.m.:

  • að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi fullgilt Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna 1985 og viðauka árið 2001, hefur Alþingi ekki enn innleitt hann í íslenska löggjöf. Nefndin hvetur stjórnvöld til að innleiða Kvennasáttmálann í íslenska löggjöf tafarlaust. Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni.
  • Að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn stofnað sjálfstæða mannréttindastofnun, eins og við höfum skuldbundið okkur að gera í samræmi við svokallaðar Parísarreglur frá 1991 (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 14). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni. Sjálfstæð mannréttindastofnun sem starfar í góðu og nánu samstarfi við Jafnréttisstofnun er algjört grundvallaratriði til að tryggja mannréttindi hér á landi og styrkja stöðu kvenna og karla.
  • Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum lýsti einnig áhyggjum yfir því hve fáum sértækum aðgerðum sé beitt til að jafna stöðu kynjanna (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 15a) og gagnrýndi íslensk stjórnvöld fyrir að meta ekki áhrif þeirra sértæku aðgerða sem beitt er (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 16a). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni og hvetur stjórnvöld til að stórefla rannsóknir og gagnaöflun innan stjórnsýslunnar svo að hægt sé að meta raunáhrif sértækra aðgerða á stöðu kynjanna, og hvetur ennfremur til þess að í kjölfar þessara rannsókna og gagnaöflunar að gripið sér til raunverulegra aðgerða til að leiðrétta kynjahalla.
  • Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum gagnrýndi einnig íslenska jafnréttislöggjöf og stefnumótun stjórnvalda fyrir að taka ekki tillit til kynjasjónarmiða og hvatti stjórnvöld til að beita samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslu á öllum sviðum, og þá sérstaklega að kynjagreina opinberar fjárveitingar (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 16b). Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þessa gagnrýni og leggur ennfremur til að í jafnréttislögum verði kveðið á um að opinberum fjárveitingum í menningum, listum og íþróttum skuli skipt jafnt á milli kynjanna, líkt og nefndin leggur til (CEDAW/C/ISL/CO/7-8, mgr. 40).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að hefja umsvifalaust þá vinnu við að uppfylla alþjóðaskuldbindingar í jafnréttismálum.

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er aðeins rætt um jafnrétti á grundvelli kyns. Þó er mikilvægt að líta til fleiri breytna þegar við ræðum um jafnrétti og Kvenréttindafélag Íslands minnir á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna hefði átt að leggja fram á Alþingi fyrir 1. desember 2019 frumvarp þar sem kveðið verði á um að þeim lögum verði breytt þannig að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar. Enn hefur þetta frumvarp ekki verið lagt fram.

Kvenréttindafélag Íslands kallar eftir heildarlöggjöf sem bannar einnig mismunun á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við núgildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018, og mun koma til með að annast stjórnsýslu í samræmi við þetta frumvarp sem nú er til umfjöllunar.

Umfang starfsemi Jafnréttisstofu hefur víkkað töluvert frá því að stofnunin var sett á laggirnar árið 2000 og Kvenréttindafélag Íslands efast um að hún hafi burði til þess að sinna öllum þeim lögbundnu verkefnum sem henni er skylt að framkvæma. Í 6. kafla greinargerðar með þessu frumvarpi kemur fram að einu stöðugildi hafi verið bætt við Jafnréttisstofu til að sinna auknum skyldum hennar en Kvenréttindafélag Íslands efar að það sé nægilegt. Einnig kemur fram í greinargerð að stöðugildi rúmist innan fjárhagsramma málaflokks jafnréttismála, sem félagið efast einnig um, en síðustu ár hefur Jafnréttisstofa þurft að leita sér utanaðkomandi fjármögnunar til að halda úti þeirri starfsemi sem hún nú þegar hefur.

Aðeins átta stöðugildi eru nú á skrifstofu Jafnréttisstofu í og ársskýrslu stofnunarinnar frá árinu 2018 kemur fram að aðeins 74% af tekjum hennar voru framlag ríkissjóðs, annars þurfti stofnunin að afla sértekna og verkefnastyrkja, jafnvel með því að sækja um fjármagn í samkeppnissjóði. Það er ótækt að ríkisstofnun skuli þurfa að eyða fjármagni og starfskrafti sínum í að afla tekna í erlenda samkeppnissjóð, til að geta unnið að lögbundnum verkefnum sínum. Einnig er vert að minnast á að Jafnréttisstofa hefur ekki heimild í lögum til að setja sér gjaldskrá.

Jafnréttisstofa sinnir veigamiklu og lögbundnu hlutverki. Það er skylda stjórnvalda að fjármagna Jafnréttisstofu að fullu svo að hún sé sterkur og öflugur eftirlitsaðili með jafnréttismálum innan stjórnsýslunnar og í samfélaginu öllu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að stórefla fjármögnun til Jafnréttisstofu svo að hún geti sinnt öllum verkefnum sínum. Það þarf að fjölga starfsfólki Jafnréttisstofu, auka nálægð Jafnréttisstofu við stjórnsýslu ríkisins og tryggja það að starfsemi Jafnréttisstofu sé á landsvísu.

Athugasemdir við einstakar greinar:

15. gr. Menntun og skólastarf

Í 15. gr. er kveðið á um að nemendur skulu hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu á öllum skólastigum „þar sem meðal annars er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks“ og að kennslu- og námsgögnum skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Við minnum á að meðal tilmæla nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum er að koma skyldu á mannréttindakennslu kvenna á grunnskólastigi og menntaskólastigi, þar sem m.a. er fjallað um kynfrelsi (CEDAW 28a).

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til að þessi grein verði skerpt og efld og að jafnréttis- og kynjafræði verði gerð að aðgreindu skyldufagi á öllum skólastigum. Jafnréttis- og kynjafræði ætti að kenna sem sérstaka námsgrein, auk þess að kennsla og námsefni í öðrum fögum skulu vera skipulögð á grundvelli jafnrétti.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að fjárveitingar til íþrótta- og tómstundamála skulu kynjagreindar og að fjárveitingum skuli skipt jafnt á milli kynjanna.

Kvenréttindafélag Íslands veltir fyrir sér hvaða skyldur falla á Menntamálastofnun í jafnréttismálum og hvetur til að þessar skyldur verði útlistaðar í jafnréttislögum.

Í umsögn sinni um þetta frumvarp dagsett 26. október 2020 hvetur Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar til þess að í þetta ákvæði sé bætt við málefni innflytjenda, svo að greinin málsgreinin hljóði svo: „Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval, málefni fatlaðs fólks, hinsegin fólks og innflytjenda“. Tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þá skoðun.

27. gr. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta

Í 27. gr. er kveðið á um að í sérhverju ráðuneyti skulu starfa jafnréttisfulltrúar sem hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna. Ekki er kveðið á um í hvaða starfshlutfalli þessir sérfræðingar skuli vera og því miður eru fæst ráðuneyti með jafnréttisfulltrúa í fullu starfi. Ennfremur er kveðið á um að jafnréttisfulltrúar skulu árlega senda Jafnréttisstofu greinargerð um stöðu og þróun kynjajafnréttismála á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að hlutverk jafnréttisfulltrúa verði útvíkkað svo að þeir hafi þekkingu bæði á jafnrétti kynjanna sem og jafnrétti í víðtækari merkingu. Bæði myndi sú breyting styrkja markmið þessara laga um jafnrétti kynjanna, sem einnig tekur á fjölþættri mismunun, og einnig samsvara útvíkkuðu hlutverki Jafnréttisstofu sem frá árinu 2018 hefur annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kveðið sé á um að jafnréttisfulltrúar innan ráðuneytanna gegni fullu starfi og að hlutverk þeirra verði útvíkkað svo að þeir hafi þekkingu bæði á jafnrétti kynjanna sem og jafnrétti í víðtækari merkingu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til gagnsæis í jafnréttisstarfi stjórnvalda og leggur til að á vef Jafnréttisstofu skuli það gert opinbert hvaða ráðuneyti hafa skilað inn greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málasviði viðkomandi ráðuneytis og að hægt sé að lesa þessar greinargerðir á vefnum.

30. gr. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða

Í 30. gr. er kveðið á um að samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra, sem og  alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt.

Í umsögn sinni um þetta frumvarp dagsett 26. október 2020 hvetur Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar til þess að í ákvæðinu sé það undirstrikað að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða eigi einnig við um úthlutun fjármagns, og tekur Kvenréttindafélag Íslands undir þá skoðun.