Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þingskjal 313 – 279. mál, 150. löggjafarþing.


3. desember 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað 27. janúar 1907 með það markmið að breyta stjórnskipunarlögum íslensku þjóðarinnar, að berjast fyrir því að konur fengju kosningarétt. 

Kosningaréttinn fengu konur skertan 1915 og til jafns við karla 1920. Jafnrétti kynjanna var þó ekki staðfest í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands fyrr en 1995, eftir þrotlausa baráttu kvenna á Alþingi. Þrátt fyrir að þar væri komin mikil réttarbót, að bæta inn jafnréttisákvæði í stjórnarskrána, er ákvæðið sem þar er að finna meingallað, ekki er þar t.d. að finna ákvæði um jafnrétti og mannréttindi hinsegin fólks eða fatlað fólks. 

Kvenréttindafélag Íslands vill benda á að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er rætt um allt fólk á Íslandi í karlkyni, “Allir” hér og “Allir” þar, þrátt fyrir að síðast þegar við athuguðum tölfræðina á Hagstofunni og á kaffistofunni væru konur og karlar nú nokkurn veginn jöfn að tali, og þrátt fyrir að nú fyrr á árinu væru samþykkt lög sem staðfestu óskoraðan rétt sérhvers einstaklings til að skilgreina kyn sitt.

Það er kominn tími til að jafnrétti sé tryggt í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands! Samþykkjum stjórnskipunarlög sem vernda mannréttindi okkar allra.

Aðrar fréttir