Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um fullgildingu íslenskra stjórnvalda á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 190, um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni, sem afgreidd var á 108. Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í júní 2019
4. nóvember 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að fullgilda tafarlaust samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 190, um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni, sem afgreidd var á 108. Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf í júní 2019.
Samþykktin er stórhuga ákall alþjóðasamfélagsins um að stjórnvöld um allan heim grípi til aðgerða til að uppræta ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði, ofbeldi sem konur hafa afhjúpað síðustu tvö árin á samfélagsmiðlum með því að deila sögum undir myllumerkinu #MeToo.
Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar nr. 190 og meðfylgjandi tilmæli um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni 2019 eru grundvöllur fyrir sterku samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, bæði samtaka launafólks og samtaka atvinnulífsins, að vinna saman að því að uppræta þá plágu sem ofbeldi og áreitni er.
Vinnum saman að samfélagi þar sem við erum öll örugg. #MeToo