Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þingskjal 375,  323. mál, 151. löggjafarþing.


2. desember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

 

Kvenréttindafélag Íslands fagnar framkomnu frumvarpi sem kveður á um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs í tólf mánuði og jafnan rétt foreldra til þessa orlofs. Kvenréttindafélagið fagnar sérstaklega að í frumvarpinu sé réttinum til fæðingar- og foreldraorlofs deilt jafnt á milli foreldra, réttarbót sem mun stuðla að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi.

Í frumvarpinu er sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengdur í sex mánuði úr fjórum, þar af einn mánuður framseljanlegur. Þessi lenging á fæðingarorlofinu er löngu tímabær og er mikill stuðningur fyrir fjölskyldur á landinu.

Frumvarpið sem nú er lagt fyrir Alþingi er sterkara eftir samráð í samráðsgátt stjórnvalda fyrr á árinu. Sveigjanleiki foreldra hefur verið aukinn með því að leggja til lengri rétt til töku fæðingarorlofs í 24 mánuði (8. gr.). Staða einstæðra foreldra hefur enn fremur verið styrkt með auknu svigrúmi til að veita forsjárforeldri rétt til tólf mánaða fæðingarorlofs í þeim tilfellum ef fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu, frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur (9. gr.). Einnig er nú lagt til að hægt sé að færa allan rétt á eitt foreldrið ef hitt foreldrið á ekki rétt á fæðingarorlofi hér á landi eða í öðru ríki (29. gr). Staða fjölskyldna í dreifbýli hefur enn fremur verið styrkt eftir samráð, en lagt er til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu í tiltekinn tíma (43. gr.). Enn fremur hefur fæðingarstyrkur til foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eða í fullu námi verið hækkaður og lagt til sveigjanleika um aukna hækkun (38. gr.), þó enn séu grunngreiðslur til þessara foreldra afar lágar og mikilvægt fyrir okkur að huga að því hvernig við getum styrkt alla hópa í samfélaginu.

Kvenréttindafélag Íslands hefur frá árinu 1944 barist fyrir fæðingarorlofi, fyrstu áratugina til að ná fram rétti allra kvenna á Íslandi til fæðingarorlofs og frá árinu 1992 fyrir sérstökum rétti karla til fæðingarorlofs með „að öllu leyti sömu kjör og konur“, eins og kom fram í stefnuskrá sem samþykkt var á landsfundi Kvenréttindafélagsins það ár.

Sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs sem Alþingi setti í lög árið 2000 hefur verið eitt stærsta skrefið sem Ísland hefur tekið til að tryggja þátttöku kvenna í samfélaginu, hvort sem er úti á vinnumarkaðnum eða í stjórnmálum. Í þessu frumvarpi er næsta skref tekið í átt til jafnréttis, öllum til heilla, að tryggja jafnan rétt beggja foreldra til fæðingarorlofs, að hvort foreldri fái sex mánuði með einum mánuði framseljanlegum.

Kvenréttindafélag Íslands hefur umsjón með vefsíðunni Betrafæðingarorlof.is þar sem birtar eru staðreyndir byggðar á rannsóknum um fæðingarorlof á Íslandi og í nágrannalöndunum, en að síðunni standa ásamt félaginu Femínísk fjármál, FKA – félag kvenna í atvinnulífinu, ASÍ, BHM og BSRB. Þessar rannsóknir sýna skýrt að jöfn þátttaka beggja foreldra í umönnun og uppeldi barna er öllum fyrir bestu, börnunum, foreldrunum, fjölskyldunum og samfélaginu.

Sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs á Íslandi hefur orðið til þess að feður taka meiri þátt í umönnun barna sinna, eykur samvinnu foreldra og minnkar líkurnar á skilnaði (sjá betrafæðingarorlof.is/fjolskyldur). Jafnt fæðingarorlof og virk þátttaka feðra í umönnun barna hefur jákvæð áhrif á alhliða þroska þeirra og eftir að feður öðluðust sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs hafa samskipti feðra og ungmenna batnað jafnt og þétt á Íslandi og eru nú þau bestu í heimi (sjá betrafæðingarorlof.is/bornin).

Rannsóknir sýna enn fremur að jafnt fæðingarorlof og virk þátttaka beggja foreldra í umönnun og uppeldi barna bætir stöðu einstæðra foreldra. Einstæðir foreldrar búa frekar við fátækt og viðkvæmar félagslegar aðstæður en foreldrar í sambúð eða hjónabandi. Góð foreldrasamvinna dregur úr líkum á fjárhagserfiðleikum þeirra þar sem hún tryggir báðum foreldrum betri tækifæri til stöðugrar atvinnuþátttöku og tekjuöflunar (sjá betrafæðingarorlof.is/fjolskyldur). 

Að sama skapi bætir jafnt fæðingarorlof stöðu kvenna á vinnumarkaði, en of löng fjarvera kvenna frá vinnu hefur neikvæð áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði. Það hefur sýnt sig að jafnt fæðingarorlof eykur líkurnar á því að mæður fari aftur í fulla vinnu eftir að hafa eignast barn. Einnig styrkir sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs stöðu karla á vinnumarkaði, þar sem skýr skipting fæðingarorlofs milli foreldra er styrkur fyrir feður í samningaviðræðum við atvinnurekendum (sjá betrafæðingarorlof.is/vinnumarkadur).

Kvenréttindafélag Íslands ítrekar enn og aftur að nauðsynlegt sé að brúa bilið á milli þess þegar fæðingar- og foreldraorlofi lýkur og þegar daggæsla barna er tryggð. Jafnvel eftir þá lengingu fæðingar- og foreldraorlofs sem um ræðir í þessu frumvarpi, stendur eftir eitt ár sem foreldrar hafa ekki tryggða daggæslu, og 17 mánuðir fyrir suma einstæða foreldra. Ísland er eina Norðurlandið þar sem börn hafa ekki lögbundinn rétt til dagvistunar. Áríðandi er að við innleiðum lög um dagvist og tryggjum fjármögnun fyrir dagvistun allra barna óháð hjúskaparstöðu foreldra frá þeim tíma þegar fæðingarorlofsrétti lýkur.

Einnig bendir Kvenréttindafélag Íslands að jafnréttismat hefur ekki verið gert á áhrifum þessa frumvarps. Samkvæmt innleiðingaráætlun um kynjaða fjárlagagerð samþykkt í ríkisstjórn 19. júní 2015 var hverju ráðuneyti gert skylt að framkvæma jafnréttismat á frumvörpum „sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna“, og átti frá og með 2019 kynjagreining að fylgja öllum þeim frumvörpum. Kvenréttindafélag Íslands telur augljóst að lög um fæðingar- og foreldraorlof muni koma til með að hafa mikil áhrif á stöðu kynjanna. Þörfin á að framkvæma jafnréttismat í þessu tilviki ætti því að vera augljós.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur Alþingi til að samþykkja þetta frumvarp sem kveður á um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs í tólf mánuði og jafnan rétt foreldra til þessa orlofs. 

 

Aðrar fréttir