Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um markvissa fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum, þingskjal 165 – 165. mál, 150. löggjafarþing.
19. nóvember 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar þeirri tillögu til þingsályktunar sem nú liggur fyrir að forsætisráðherra sé falið að skipuleggja og hefja viðvarandi fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum, og að fyrstu þrjú árin verði a.m.k. 150 milljónum króna varið til verkefnisins.
Kvenréttindafélagið ályktaði í fyrsta skipti 20. febrúar 2014 að kynjafræði ætti að vera skyldufag í grunn- og framhaldsskólum landsins, þegar félagið sendi frá sér ályktun ásamt Landssambandi femínistafélaga framhaldsskólanna sem þá var starfandi. Bentu félögin á að þrátt fyrir að aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla kvað á um að nám byggðist m.a. á jafnrétti, væri ekki hægt að sjá að kennslu hafi verið breytt að ráði. Ályktuðu félögin að skólar landsins væru að bregðast skyldum sínum við komandi kynslóðir að hafa ekki lagt meiri áherslu á jafnréttisfræðslu meðal ungs fólks en raun ber vitni, og hvöttu stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, til að leita leiða til að kenna jafnrétti og kynjafræði á öllum skólastigum.
Stöndum við í Kvenréttindafélaginu enn fast á bak við þessa hvatningu, við þessa kröfu, að stjórnvöld fylgi eftir þeirri stefnu sem mörkuð er í aðalnámskrá og leggi fram það fjármagn og starfskraft sem til þarf að skapa námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla í kynja- og jafnréttisfræði, sem og að endurskipuleggja nám í kennaraháskólum landsins til að mennta kennara til að kenna þessi fræði.
Fögnum við því sérstaklega þeirri tillögu til þingsályktunartillögu sem nú er komin fram að forsætisráðherra verði falið að skipuleggja og hefja fræðslu í kynjafræði, tillögu sem felur í sér fjármagn til að framkvæma þessi verkefni. Sérstaklega fögnum við því að í þessari þingsályktunartillögu er fjármagn sérstaklega ætlað til jafnréttisfræðslu innan réttarvörslukerfisins, að styrkja endur- og símenntun hjá m.a. hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum.
Rannsóknir benda til þess að kynferðislegt ofbeldi er geigvænlega útbreitt hér á landi. Fyrstu niðurstöður rannsóknarverkefnisins Áfallasaga kvenna hjá Háskóla Íslands voru birtar í lok árs 2018 og bentu til þess að fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun á lífsleiðinni og að sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi. Þessar niðurstöður kallast á við niðurstöður úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga sem Landlæknisembættið framkvæmir á fimm ára fresti. Árið 2017 kom í ljós að 0,8% kvenna höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á síðastliðnum 12 mánuðum og 23,1% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir kyn ferðislegu ofbeldi fyrir meira en 12 mánuðum. Kynferðislegt ofbeldi er ekki aðeins vandamál kvenna. Í þessari sömu rannsókn Landlæknis kom fram að 0,25 karla höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á síðastliðnum tólf mánuðum og 6,85 karla höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir meira en 12 mánuðum.
Umfang ofbeldisins er þvílíkt að við getum ekki lengur leyft okkur að bregðast við því á einstaklingsgrundvelli. Þetta ofbeldi er samfélagsmein og við þurfum samstillt átak samfélagsins alls til að uppræta það.
Menntun í kynja- og jafnréttisfræði þar sem áhersla er lögð á kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samskiptis í kynferðislegum samskiptum er frábært fyrsta skref þess að byggja samfélag án ofbeldis, og því hvetjum við Alþingi til að samþykkja þessa þingsályktunartillögu tafarlaust.
Kvenréttindafélag Íslands vill minna á yfirlýsingu mótmælafunda kvenna á kvennafrídegi 24. október 2018: “Við krefjumst þess að jafnrétti og kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum, að í skólum landsins kennum við næstu kynslóð um fjölbreytileika samfélagsins. Kennsla í kynjafræði er lykillinn að því að breyta samfélagi okkar til frambúðar, uppræta staðalmyndir kynja og klámvæðingu samfélagsins.” Tekur Kvenréttindafélagið undir þessa kröfu kvennafrísins.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur til að öll fræðsla í kynjafræði leggi áherslu á jafnrétti í víðum skilningi.