Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um mótun skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í tengslum við þátttöku í átaksverkefni UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum). Mál nr. 101/2021, utanríkisráðuneytið

3. maí 2021
Hallveigarstöðum, Reykjavík

 

 

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessari aðgerðaráætlun alþjóðlegs bandalags gegn kynbundnu ofbeldi og sendir hér inn hugmyndir að skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld geta sett sér til að leggja sitt af mörkunum til að uppræta kynbundið ofbeldi.

Aðgerð 1: Stuðlað verði að stefnumótun og lagasetningu sem hafi að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum.

  • Íslensk stjórnvöld geri heildarúttekt á íslenskum lögum til að tryggja að tekið sé á heildstæðan máta á kynbundnu ofbeldi í lagabálknum,
  • Íslensk stjórnvöld geri heildarúttekt á íslenskum lögum til að tryggja að réttindi fólks með kynhlutlausa skráningu séu tryggð í einu og öllu
  • Íslensk stjórnvöld fjármagni og framkvæmi hugmyndir aðgerðarhóps í velferðarráðuneytinu sem skipaður var 2018 til að koma á fót aðgerðum í því skyni að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að brotaþolar sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum verði veitt aðild að sakamálinu, eða flest þau réttindi sem aðildastaða veitir, ekki síst í því skyni að styrkja réttarstöðu þeirra gagnvart ríkinu og veita lögreglu og ákæruvaldi aðhald í málinu. Í dag eru brotaþolar einungis vitni í eigin máli og hafa því lítinn rétt á að fylgjast með framgangi málsins eða gera athugasemdir. Einnig verður að tryggja að ríkið getið verið skaðabótaskylt ef brotið er á rétti brotaþola til réttlátrar málsmeðferðar.
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að brotaþolum verði veitt kæruheimild á rannsóknarstigi telji brotaþoli að verið sé að fyrirgera rétti um réttláta málsmeðferð og að lögfest verði hlutlæga skaðabótaábyrgð þegar slæleg vinnubrögð lögreglu og ákæruvalds, valda því að ekki er hægt að ákæra í máli.
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að brotaþolar njóti áfram aðstoðar réttargæslumanns þó svo mál, sem er samsett úr nokkrum kæruliðum, klofni og þeim kæruliðum sem eftir standi fylgi ekki réttargæslumaður.
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að brotaþolar fái bætur ef refsing ákærða er lækkuð sökum langs málsmeðferðartíma.
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að brotaþolar í kynferðisbrotamálum og málum er varða ofbeldi í nánum samböndum hafi rétt á gjafsókn og ríkissjóður ábyrgist dæmdar bætur í einkamálum gegn stjórnvöldum með sambærilegum hætti og kveðið er á um í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þetta myndi veita brotaþolum aukinn möguleika á lagalegri viðurkenningu á því óréttlæti sem þær voru beittar, sé sakamálarannsókn á broti gegn þeim hætt eða mál fellt niður.
  • Íslensk stjórnvald tryggi að auknu fjármagni sé veitt í rannsókn og saksókn mála sem varða kynbundið ofbeldi, kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum í þeim tilgangi að auka gæði málsmeðferðarinnar og stytta málsmeðferðartíma.
  • Íslensk stjórnvöld bjóði upp á reglulega endurmenntun aðila í dómskerfinu um kynbundið ofbeldi, hvort eð er dómara, saksóknara, réttargæslufólks, lögreglufólks eða annarra aðila sem koma að meðferð og rannsókn mála
  • Íslensk stjórnvöld séu ávallt sterkur alþjóðlegur málsvari fyrir réttindum kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi á alþjóðavettvangi

Aðgerð 2: Stuðlað verði að samþykkt og framkvæmd gagnreyndra aðgerðaáætlana um forvarnir með það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum.

  • Íslensk stjórnvöld geri kynja- og jafnréttisfræði að skyldufagi á öllum skólastigum, þar sem rætt er sérstaklega um kynbundið ofbeldi
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að kennaraháskólar landsins bjóði upp á kennslu í kynja- og jafnréttisfræðum, þar á meðal um um kynbundið ofbeldi, til að þjálfa kynjafræðikennara á öllum skólastigum
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að námsgögn í kynja- og jafnréttisfræðum séu til á íslensku fyrir öll skólastig, þar sem m.a. er fjallað um kynbundið ofbeldi
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að grunn- og framhaldsskólar hafi fræðslu- og viðbragðsáætlun gegn kynbundnu ofbeldi
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að Embætti landlæknis kalli eftir ítarlegum upplýsingum um ofbeldi, þ.á.m. kynbundið ofbeldi, í reglubundinni rannsókn sinni á heilsu og líðan Íslendinga og birti ávallt opinbera skýrslu um niðurstöðurnar, til að tryggja greiðan aðgang að áreiðanlegum og uppfærðum upplýsingum um umfang vandans
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að öll stefnumótun í starfi gegn kynbundnu ofbeldi taki tillit til ólíkra þarfa ólíkra hópa og fjölþættar mismununar

Aðgerð 3: Stuðlað verði að bættum aðgangi þolenda kynbundins ofbeldis að hvers kyns þjónustu aðila sem hafi burði til að sinna hlutverki sínu.

  • Íslensk stjórnvöld tryggi að þolendur kynbundins ofbeldis hafi aðgang að þjónustu í sinni heimabyggð, t.d. í gegnum heilbrigðisstofnanir
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að konur á Íslandi sem ekki hafa íslensku á móðurmáli geti leitað stuðnings og aðstoðar á móðurmáli sínu
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að upplýsingar fyrir þolendur kynbundins ofbeldis séu aðgengilegar ekki aðeins á íslensku, heldur einnig á fleiri tungumálum
  • Íslensk stjórnvöld tryggi aðgengi fatlaðra kvenna að stuðningi og  þjónustu vegna kynbundins ofbeldis
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að aðgerðaráætlanir gegn kynbundnu ofbeldi og þjónusta fyrir þolendur kynbundins ofbeldis taki tillit til fjölþættar mismununar
  • Íslensk stjórnvöld tryggi aðgengi allra þolenda kynbundins ofbeldis að þjónustu, óháð kyni, kynhneigð, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, trú, lífsskoðunar, fötlun, aldurs, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, þjóðernisuppruna, litarhætti, efnahag, ætterni og stöðu að öðru leyti

Aðgerð 4: Samtökum kvennahreyfingarinnar verði gert kleift að halda úti starfsemi og hafa áhrif á stefnumótun sem varðar kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum.

  • Íslensk stjórnvöld fjármagni frjáls félagasamtök sem starfa gegn kynbundnu ofbeldi og samtök innan femínísku hreyfingarinnar með rekstrarstyrkjum til fleiri ára, ekki tímabundnum verkefnastyrkjum
  • Íslensk stjórnvöld vinni alla stefnumótun í kynbundnu ofbeldi í náinni samvinnu með frjálsum félagasamtökum sem starfa gegn kynbundnu ofbeldi og samtökum  femínísku hreyfingarinnar
  • Íslensk stjórnvöld tryggi að 50% íslenskrar þróunaraðstoðar fari til samtaka sem vinna að kvenréttindum og bættri stöðu kvenna, og að 20% sé sérstaklega eyrnamerkt verkefnum gegn kynbundnu ofbeldi.