Umsögn um þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023. Mál nr. S–152/2019

Hallveigarstöðum, Reykjavík
9. júlí 2019

Kvenréttindafélag Íslands fagnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020 – 2023 sem nú liggur til umsagnar. Áætlunin er framsækin og í henni er að finna verkefni sem eiga eftir að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. 

Það sker þó í augun að engin verkefni innan áætlunar tekur á fjölþættum breytum jafnréttis, þ.e. að verkefni sem taka á stöðu fatlaðra kvenna, hinsegin kvenna og kvenna af erlendum uppruna, m.a., eru ekki sett í framkvæmdaáætlun jafnréttismála næstu fjögur árin. 

Enn fremur er ekkert fjallað um stöðu jafnréttis kynjanna fyrir dómstólum, hvorki fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti eða í Hæstarétti. Það er alþekkt staðreynd að það hallar verulega á stöðu kvenna í Hæstarétti þar sem einungis einn dómari af níu er kona eins og gerð var athugasemd við í áliti nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) 2016. Það er fullt tilefni til að kanna nánar hvað veldur og til að gera rannsóknir á stöðu kvenna sem starfsmenn dómstóla og dómarar. Þá er einnig nauðsynlegt að kanna jafnt aðgengi kynjanna að dómstólum og áhrif kynjaðar slagsíðu (nauðgunarmenningar) á réttinn. Í þeim tilgangi má líta til rannsókna Þórhildar Sæmundsdóttur og Þorgerðar J. Einarsdóttur: „Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“, um orðræðugreiningu á dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum og Ritgerð Evu Huldar Ívarsdóttur: „Um sönnun í nauðgunarmálum“.  

Í greinargerð með áætluninni er bent á að á alþjóðavettvangi er litið til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar löggjöf í jafnréttismálum og framkvæmda stjórnvalda á sviðum jafnréttis. Þessi áætlun á eftir að styrkja stjórnvöld í að stuðla að aukna jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins, en ávallt má gera betur, bæði í að efla verkefni sem þegar eru áætluð og að bæta við fleirum. 

Kvenréttindafélag Íslands minnir á alþjóðasamninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert  í jafnréttismálum, að gætt sé að því að í framkvæmdaáætluninni sé unnið að því að uppfylla alþjóðaskuldbindingar. Af því tilefni minnum við sérstaklega á tilmæli nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum til íslenskra stjórnvalda frá árinu 2016 („Concluding observations on the combined seventh and eighth periodic reports of Iceland“, Committee on the Elimination of Discrimination against Women 19. mars 2016)

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að litið verði til eftirfarandi athugasemda þegar unnið er að endurbótum framkvæmdaáætlunarinnar. Fulltrúar félagsins eru ávallt reiðubúnir til að mæta á fund stjórnvalda til að aðstoða frekar við endurskoðun áætlunarinnar.

A1. Jafnréttissjóður Íslands

Í framkvæmdaáætluninni er áætlað að einni milljónum króna sé varið í að gera samantekt á verkefnum sem hlotið hafa styrki úr Jafnréttissjóði Íslands sem stofnaður var 2015 og fjármagnaður er til 2020.

Kynjajafnrétti er undirstaða samfélags okkar og sjálfbærrar framtíðar og stjórnvöldum ber að styrkja verkefni í þágu jafnréttis. Þær framfarir sem hafa átt sér stað í jafnréttismálum á undanförnum árum væru óhugsandi ef ekki væri fyrir rannsóknir og sjálfstæð verkefni í jafnréttismálum. Með því að fjármagna jafnréttisstarf sem unnið er utan stjórnsýslunnar, leggur Jafnréttissjóður undirstöðuna að áframhaldandi framþróun jafnréttis á Íslandi.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að stjórnvöld tryggi framtíðarfjármögnun Jafnréttissjóðs og sjái til þess að sjóðurinn verði starfræktur til frambúðar. 

A3. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta

Í framkvæmdaáætluninni er áætlað að einni milljón króna sé varið í fræðslu til jafnréttisfulltrúa ráðuneyta. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta gegna mikilvægu starfi, að fylgja eftir verkefnum í jafnréttismálum innan sinna ráðuneyta, að taka þátt í gerð jafnréttismats á lagafrumvörpum, móta áætlanir um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku, o.s.frv. Það er því bagalegt að í aðeins einu ráðuneyti sé starfandi jafnréttisfulltrúi í fullu starfi. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að tryggja það að í hverju ráðuneyti sé starfandi jafnréttisfulltrúi í fullu starfi.

B8. Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðall

Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir að stjórnvöld vinni áfram að innleiðingu jafnlaunavottunar, vinni að fræðslu- og kynningarstarfi á faggildri vottun jafnlaunakerfa á grundvelli jafnlaunastaðalsins, að Jafnréttisstofa safni og birti upplýsingar um jafnlaunavottun fyrirtækja og stofnana, að hugbúnaður verði þróaður fyrir starfaflokkun og launagreiningar til að auðvelda fyrirtækjum og stofnunum innleiðingu jafnlaunakerfa og að unnið verði að uppfærslu jafnlaunastaðalsins.

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir ánægju með þetta verkefni. Jafnlaunavottunin er eitt stærsta skref sem tekið hefur verið í jafnréttisbaráttunni á Íslandi síðustu árin og mikilvægt er að stjórnvöld vinni vandað verk til að sjá til þess að framkvæmd jafnlaunavottunar sé sem skilvirkust og gegnsæjust. Í verkefnislýsingu kemur fram að verkefnið sé fjármagnað og sé á ábyrgð forsætisráðuneytisins og Jafnréttisstofu. 

Kvenréttindafélag Íslands veltir fyrir sér hvort að fjármögnun til Jafnréttisstofu sé nægileg til að hún geti bætt þessu mikilvæga verkefni á starfsskyldur sínar. Í ársskýrslu Jafnréttisstofu frá árinu 2018 kemur fram að aðeins 74% af tekjum Jafnréttisstofu voru framlag ríkissjóðs, annars þurfti stofnunin að afla sértekna og verkefnastyrkja, jafnvel með því að sækja um fjármagn í samkeppnissjóði. Það er ótækt að ríkisstofnun skuli þurfa að eyða fjármagni og starfskrafti sínum í að afla tekna í erlenda samkeppnissjóði, til að geta unnið að lögbundnum verkefnum sínum.

Jafnréttisstofa sinnir veigamiklu og lögbundnu hlutverki. Það er skylda stjórnvalda að fjármagna Jafnréttisstofu að fullu svo að hún sé sterkur og öflugur eftirlitsaðili með jafnréttismálum innan stjórnsýslunnar og í samfélaginu öllu.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að stórefla fjármögnun til Jafnréttisstofu svo að hún geti sinnt þessu mikilvæga verkefni, sem og öðrum verkefnum sem hún gegnir. 

B9. Jafnrétti á vinnumarkaði

Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir að kannaðar verði forsendur fyrir skipan samráðshóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, að gerð verði rannsókn á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild og að Jafnréttisstofa fylgi eftir tillögum aðgerðarhóps um launajafnrétti um aðgerðir til að draga úr kynskiptu náms- og starfsvali.

Allt eru þetta verðug verkefni, en ná engan veginn utan um þann gífurlega vanda sem kynbundinn launamunur er.

Ein af helstu ástæðum langvarandi kynbundins kjaramismunar er sú staðreynd að fólk sem starfar innan starfsgreina þar sem konur eru í meirihluta eru fær að jafnaði lægri laun en fólk sem starfar innan starfsgreina þar sem karlar eru í meirihluta. Við búum því miður enn í samfélagi þar sem kvennastörf eru minna metin en karlastörf, þar sem framlag kvenna til samfélagsins er enn talið minna virði en framlag karla.

Launamun kynjanna verður ekki útrýmt nema með stórhuga og samstilltum aðgerðum samfélagsins alls. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að setja á framkvæmdaáætlun stórhuga aðgerðir til að jafna kjör kvennastétta og karlastétta á vinnumarkaði.

B10. Jafnrétti í stjórnum fyrirtækja

Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir að skoðað verði hvort að markmiðum með setningu ákvæða um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja hafi verið náð, og að löggjöfin verði nánar rýnd og að leiðir til úrbóta greindar ef þörf þykir.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að ákvæðið um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og stofnana verði útvíkkað svo að það eigi við um fyrirtæki sem hafi 25 eða fleiri starfsmenn á ársgrundvelli, ekki fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eins og kveðið er á um í dag.

B11. Jafnrétti og fæðingarorlof

Í framkvæmdaáætluninni kemur fram að á unnið verði á tímabilinu að því að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði og að sé markmiðið meðal annars að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafi fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þangað til barn fær dvöl á leikskóla.

Flest sveitarfélög tryggja börnum dagvist frá 2 ára aldri, en þrátt fyrir fyrirhugaða lengingu fæðingarorlofs, stendur eftir eitt ár sem foreldrar hafa ekki tryggða daggæslu, og 17 mánuðir fyrir einstæða foreldra.

Kvenréttindafélag Íslands vill í þessu samhengi benda á öðrum Norðurlöndum er réttur barna til að komast í dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi lögbundinn. Aðeins á Íslandi er þessi réttur ekki tryggður. 

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að á tímabilinu sé lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp til að tryggja rétt barna til dagvistunar strax að loknu fæðingarorlofi foreldra.

C14. Jafnrétti innan lögreglunnar

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir ánægju með að jafnrétti innan lögreglunnar sé sett í forgang í þessari framkvæmdaáætlun jafnréttismála. Fjölgun kvenna innan lögreglunnar hefur gengið hægt, þrátt fyrir aukna vitundarvakningu um slæma stöðu kvenna innan lögreglunnar.

Kvenréttindafélag Íslands vill í þessu samhengi benda á að árið 2016 sendi nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW nefndin) tilmæli til íslenskra stjórnvalda að grípa tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti, og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar (stöðu sendiherra).

Óljóst er hvaða raunbreytingar hafa átt sér stað á vinnumenningu innan embættisins í kjölfar skýrslu Finnborgar Salome Steinþórsdóttur frá árinu 2013 þar sem fram kom að tæplega 18% lögreglumanna töldu sig þolendur eineltis í lögreglunni, þ.e. 24% kvenna og 17% karla, og að gerendur eineltis væru oftast karlkyns yfirmenn eða karlkyns samstarfsmenn. Í skýrslunni kom einnig fram að tæplega 31% kvenna og 4% karla í lögreglunni töldu sig þolendur kynferðislegrar áreitni í lögreglunni, og voru gerendur karlkyns samstarfsmenn og karlkyns yfirmenn.

Gott er að í framkvæmdaáætluninni sé gert ráð fyrir að farið verði í framhaldsrannsóknir á vinnumenningu, að kyngreindum gögnum um ráðningar, embættisskipanir, framgang í starfi og brottfalli sé safnað saman, að ráðningarferlið innan lögreglunnar verði greint, og að tillögum til úrbóta verði lagðar fram.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að í áætluninni sé gert ráð fyrir sértæku fjármagni til að hefja umbætur strax að loknu greiningarferli. Í áætluninni er aðeins gert ráð fyrir að tillögur til úrbóta séu lagðar fram. Það er ekki nóg, við viljum sjá breytingar, strax!

Kvenréttindafélag Íslands hvetur enn fremur til þess að í framkvæmdaáætluninni sé tryggð fjármögnun fyrir endurmenntun lögreglumanna, til að stuðla að aukinni vitund um jafnrétti á vinnustað og stöðu kvenna og jaðarsettra hópa í samfélaginu. 

D15. Jafnrétti í skólastarfi

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að í framkvæmdaáætluninni sé gert ráð fyrir að auka jafnrétti í skólastarfi, m.a. með því að fjölga körlum í kennarastéttinni, greina orsakir brotthvarfs drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku úr námi, verkefna til að draga úr kynbundnu námsvali, og aðgerða til að jafna þátttöku kynjanna í öllum þáttum félagslífs framhaldsskóla.

Þessi verkefni eru mjög verðug öll hver, en eiga eftir að hafa hverfandi áhrif ef ekki er gripið til gagngerra endurbóta á uppbyggingu kennslunnar sem í boði er á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Aðeins með markvissri fræðslu í jafnrétti og kynjafræði ráðumst við á rót kynbundins ofbeldis í samfélaginu.

Aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2011 gera ráð fyrir að jafnrétti sé ein af grunnstoðum menntunar í dag, en það er ekki nóg. Kynja- og jafnréttisfræði ætti að vera skyldufag á öllum skólastigum, námsgrein sem kennd er af kennurum sem hafa menntun í jafnréttisfræðum, byggð á námsgögnum sem styrkt er til útgáfu af Menntamálastofnun. Eins og staðan er í dag, er ekki í boði kynjafræðikennsla í kennaraháskólum landsins og engin skólabók í kynja- eða jafnréttisfræði er til boða til kennslu á grunn- eða framhaldsskólastigi. 

Nú þegar er farið að kenna kynjafræði í rúmlega helmingi framhaldsskóla af landinu, og þar af hafa níu skólar gert kynjafræði að skyldufagi, sex í einstökum námsbrautum og þrír fyrir alla nemendur. Þessi bylting á skólastarfi hefur verið drifin áfram af áhuga og ástríðu kennara fyrir jafnrétti og skólastarfi, og óvíst er hvort þessi bylting eigi eftir að vara ef ekki komi til stóraukins stuðnings stjórnvalda við kynjafræðikennslu á öllum skólastigum.

Aðeins með því að kenna börnum og unglingum markvisst um jafnrétti og lýðræði, á öllum skólastigum, getum við komið á djúpstæðum breytingum í samfélaginu. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kynja- og jafnréttisfræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum, leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, að kennsla í kynja- og jafnréttisfræði verði einnig gerð að skyldufagi öllum kennaranemum á landinu, og að skrif og útgáfa námsefnis í kynja- og jafnréttisfræði verði styrkt.

D16. Jafnrétti og öryggi

Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð einni milljón króna í verkefni til að efla fræðslu og þekkingu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi meðal barna og ungmenna auk allra þeirra sem vinna í leik- og grunnskólum og framhaldsskólum. Einnig er gert ráð fyrir að tveimur milljónum verið varið í að auka öryggi og jafnrétti í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Kvenréttindafélag Íslands efast um að þessi upphæð dugi til að standa að svo mikilvægri fræðslu fyrir þennan stóra hóp nemenda, kennara og starfsfólks.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að fjármögnun til fræðslu um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi í skólum verði stóraukin.

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að fjármögnun til verkefnis til að auka öryggi og jafnrétti í íþrótta- og æskulýðsstarfi verði stóraukin.