Umsögn vegna heildurendurskoðun laga um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir 2016

Hallveigarstöðum, Reykjavík
15. júní 2016

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi skipað nefnd til að endurskoða í heild lög nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Í lok ársins 2015 kom út bókin Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum þar sem Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir söfnuðu saman sögum kvenna sem rofið hafa þungun. Staðfestu þessar frásagnir að núgildandi löggjöf, þar sem þessi aðgerð er háð leyfi utanaðkomandi heilbrigðisstarfsmanna og skilyrt við ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir, sé í sumum tilfellum bæði auðmýkjandi og ekki hlutlaus.

Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk. Því er löngu tímabært að farið sé í endurskoðun á löggjöfinni til að færa hana til nútímans og viðurkenna kynfrelsi kvenna og yfirráð kvenna yfir eigin líkama.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands óskar nefndinni sem nú leggur í þá vegferð að endurskoða lögin farsælu starfi. Við viljum koma á framfæri eftirfarandi punktum sem vert er að hafa í huga, og erum reiðubúin til áframhaldandi samstarfs.

Fyrirmyndarlöggjöf um þungunarrof

  • Við bendum á sænsku löggjöfina sem fyrirmynd að íslenskum lögum um þungunarrof, en samfélagssátt ríkir um lögin í Svíþjóð, Abortlag (1974:595), síðast breytt 2013.

 Orðanotkun í lögum um þungunarrof

  • Við hvetjum til þess í nýjum lögum verði ekki lengur rætt um „fóstureyðingar“ heldur um „þungunarrof“. Orðið fóstureyðing er gildishlaðið orð og í grein í Læknablaðinu 2015 er mælt með því að notað sé orðið„þungunarrof“ í staðinn, hlutlaust og lýsandi hugtak (Jens A. Guðmundsson, Ósk Ingvarsdóttir, Reynir Tómas Geirsson og Sóley S. Bender, „Þungunarrof á Íslandi í 80 ár. Góð reynsla en er þörf á að breyta?“).
  • Forðast skal kynjað orðalag í lögunum. Kynvitund manneskja er flókin, og sum hver sem ganga með börn, og sem fara í þungunarrof, skilgreina sig sem karla.

  Engin skerðing á rétti til að rjúfa þungun

  • Við leggjum ríka áherslu á sjálfsákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama.
  • Rétturinn til að fara í þungunarrof skal ekki vera háður leyfi utanaðkomandi aðila. Engin nauðsyn er að meta aðstæður fólks sem vill fara í þungunarrof. Þau sem vilja rjúfa þungun eigin líkama eiga að hafa fullt frelsi til þess.
  • Ungmenni sem hafa ekki náð lögaldri skulu einnig hafa rétt til að rjúfa þungun, og á ekki að þurfa til þátttöku eða leyfi foreldra eða annarra umsjónarmanna.
  • Réttinn til að fara í þungunarrof skal ekki skilyrða við fræðslu eða ráðgjöf um getnaðarvarnir, barneignir eða kynheilsu. Það er sjálfsagt að bjóða upp á slíka fræðslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum, en fráleitt að neyða fólk til að fara í slíka fræðslu, og fráleitt að rætt sé um þessa fræðslu í lögum um þungunarrof.
  • Við teljum að í lögum um þungunarrof skuli ekki sérstaklega tilgreina hvaða ástæður liggi að baki þungunarrofi.

 Tímatakmörk þungunarrofs

  • Við teljum of stutt sé að takmarka þungunarrof við fyrstu 12 vikur þungunar eins og stendur í íslenskum lögum í dag. Taka skal fram í þessu samhengi að lífslíkur fóstra sem fæðast fyrir 22. viku eru engar. Við bendum á að samkvæmt dómi Hæstaréttar 4. desember 1997 í máli nr. 134/1997, þá hefur mat konu á eigin aðstæðum og vilji hennar til að rjúfa þungun verið virtur við umsókn um þungunarrof á fyrstu 12 til 16 vikum þungunar. Einnig bendum við á að í Svíþjóð er þungunarrof frjálst til loka 18. viku meðgöngu.

 Aðgangur að þungunarrofi tryggður

  • Tryggja þarf greiðan aðgang að þungunarrofi. Þungunarrof ætti að framkvæma af fagaðilum í heilbrigðiskjörnum um allt land.
  • Við teljum afar mikilvægt að í lögunum sé skýrt að heilbrigðisstarfsmenn geti ekki neitað að framkvæma eða aðstoða við þungunarrof, hvorki af „samviskuástæðum“ né neinum öðrum ástæðum.
  • Mikilvægt er að almenningur viti nákvæmlega hvar og hvernig hægt sé að rjúfa þungun, með virkri upplýsingaskyldu um staðsetningar fagaðila, um rétt einstaklinga til þungunarrofs, og um aðstoð sem er í boði fyrir og eftir þungunarrof. Mikilvægt er að þessar upplýsingar séu ekki aðeins til á íslensku heldur einnig á helstu tungumálum innflytjenda á Íslandi.

 Réttur til aðhlynningar við þungunarrof

  • Fólk sem velur að rjúfa þungun ætti samkvæmt lögum að hafa aðgang að ókeypis sálfræðilegri aðhlynningu eftir aðgerð. Einnig ætti það að hafa greiðan aðgang að þjónustu fyrir og eftir aðgerð eftir þörfum.
  • Heilbrigðiskjarnar sem taka á móti fólki sem vill rjúfa þungun ættu að fylgja skýrum verkferlum sem skrifaðir eru af virðingu.
  • Aðhlynning fólks sem vill rjúfa þungun ætti ekki að fara fram á sama stað og aðhlynning fólks sem gengur með barn.

 Sjálfsákvörðunarréttur til ófrjósemisaðgerða

  • Lög um ófrjósemisaðgerðir þurfa að tryggja sjálfsákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama.
  • Ófrjósemisaðgerðir sem framkvæmdar eru án samþykkis fólks eru brot á mannréttindum.
  • Tryggja þarf að fólk sem fari í ófrjósemisaðgerð skilji rétt sinn, aðgerðina og ferlið, og að réttur þeirra sé virtur í hvívetna og ekki hunsaður til hagsmuna annarra.