Rúmlega 30 konur mættu á súpufund KRFÍ í Tryggvaskála á Selfossi 19. janúar sl. Fundurinn var einstaklega vel heppnaður og er ekki síst góðu skipulagi Kvenfélags Selfoss þar um að þakka.


Tilefni fundarins var það að eftir kvennafrídaginn 25. október sl. var haft eftir framkvæmdastjóra sveitarfélagsins Árborgar, Ástu Stefánsdóttur, að jafnrétti væri að fullu náð í sveitarfélaginu. Það vakti að vonum athygli KRFÍ líkt og margra annnarra. Ásta var ein af tveimur frummælendum á fundinum. Í máli hennar kom fram sömu laun eru greidd  skv. kjarasamningum fyrir sömu vinnu í sveitarfélaginu en að vissulega væru það fleiri konur sem ynnu hlutastörf og að hin hefðbundnu kvennastörf væru metin lægra en mörg hefðbundin karlastörf. Hún upplýsti að 84,5% starfsmanna sveitarfélagsins væru konur og 15,5% karlar, enda mörg störf á vegum sveitarfélagsins sem eru á sviði umönnunar sem eru hefðbundin kvennastörf, líkt og starfsmenn grunn- og leikskóla. Í 34 manna stjórnendahópi sveitarfélagsins er 20 konur og 14 karlar. Það er athyglisvert að það hlutfall er ekki í samræmi við áðurnefnt hlutfall kynjanna hjá sveitarfélaginu.

Elva Dögg Þórðardóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sagði frá reynslu sinni sem kona í stjórnmálum. Hún taldi konur oft verða fyrir fordómum og mismunun vegna kynferðis síns á sviði stjórnmálanna og að þeirra hlutur væri oft rýrari en karla. Það kom t.d. fram að af 15 sveitarstjórum á svæðinu væru 9 þeirra karlar en 6 konur.

Aðrar fréttir