Kvenréttindafélag Íslands hélt aðalfund sinn á Hallveigarstöðum, í dag 31. maí 2017.
Áður en fundur hófst afhenti formaður Kvenréttindafélagsins Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningu fyrir gott starf í þágu jafnréttis kynjanna. Tók Alda Hrönn Jóhannsdóttir við viðurkenningunni fyrir hönd Lögreglunnar.
Í tilefni 110 ára afmælis Kvenréttindafélags Íslands vill stjórn félagsins veita viðurkenningu þeim aðila sem hefur með framúrskarandi hætti bætt frelsi kvenna undanfarin misseri.
Fyrir valinu varð Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrir að setja ofbeldi gegn konum í forgang innan embættisins.
Ekki einungis hefur verklag í málum um ofbeldi í nánum samböndum verið eflt til muna, svo að tilkynningar til lögreglu hafa aukist til muna, heldur hefur enn fremur verið lögð frekari áhersla á mansal og vændi og stendur til að leggja frekari áherslu á nauðganir og önnur kynferðisbrot.
Með þessu hefur embættið lagt sitt á vogaskálarnar til að uppræta ofbeldi gegn konum og auka lífsgæði kvenna.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands þakkar Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vel unnin störf og vill um leið senda hvatningu til áframhaldandi góðra starfa.
Á aðalfundi var Fríða Rós Valdimarsdóttir kosin formaður Kvenréttindafélagsins til tveggja ára. Dagný Ósk Aradóttir Pind, Steinunn Stefánsdóttir og Tatjana Latinovic voru kosnar í stjórn sem aðalmenn og í varastjórn voru kosnar Ellen Calmon, Eyrún Eyþórsdóttir og Snæfríður Ólafsdóttir. Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir og Hugrún R. Hjaltadóttir sitja áfram í stjórn félagsins.
Á fundinum voru samþykktar ýmsar breytingar á lögum félagsins, sú veigamesta án efa uppfærð markmið félagsins:
Markmið félagsins er að vinna að kvenréttindum og jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Félagið leggur áherslu á mannréttindi í víðum skilningi og vinnur gegn hvers konar mismunun.
Hægt er að lesa núgildandi lög Kvenréttindafélagsins á vefsíðu félagsins.
One Comment
Comments are closed.
Þökkum það sem vel er gert!