Vigdís Finnbogadóttir, rammi eftir Örnu Rún Gústafsdóttur

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands, er níræð í dag. Fjörutíu ár eru liðin frá því að Vigdís var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna í heimi til að vera lýðræðislega kjörinn þjóðhöfðingi.

Framboð Vigdísar og kjör spratt upp úr grósku femínísku baráttunnar á 8. áratugnum og störf hennar í forsetatíð og eftir að hún lét af embætti hafa verið okkur öllum fyrirmynd og drifkraftur í áframhaldandi baráttu til kynjajafnréttis.

Árið 1987 birtist viðtal við Vigdísi í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins, þar sem hún ræddi mikilvægi þess að konur taki jafnan og fullan þátt í samfélaginu. Vigdís lauk viðtalinu með eftirfarandi sögu: 

„Ég get sagt þér að ég hef tekið upp þann sið að rísa alltaf úr sæti þegar karlarnir standa upp á samkomum og syngja Fósturlandsins freyju. Ég dáist að fósturlandsins freyju og af hverju eiga þá karlar einir að standa upp? Finnst þér ekki fyndið að konur skuli límdar við stólana þegar verið er að syngja óð til landsins kvenna almennt? Ég hlakka til þess dags, þegar allt kvenfólk í landinu sprettur á fætur og horfir beint framan í karlana sína – og ekki upp til þeirra – þegar sú ágæta fósturlandsins freyja er lofuð á söngglöðum mannamótum.“

#TakkVigdís

Vigdís Finnbogadóttir, Sigríður Th. Erlendsdóttir og Björg Einarsdóttir voru útnefndar heiðursfélagar Kvenréttindafélags Íslands á 90 ára afmæli félagsins 27. janúar 1997. Mynd: 19. júní 1997
Sigríður Th. Erlendsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Björg Einarsdóttir heiðursfélagar Kvenréttindafélagsins sóttu 113. ára afmæli félagsins 27. janúar 2020. Mynd: Juliette Rowland

Vigdís Finnbogadóttir ávarpaði opnunarhátíð Nordiskt Forum í Malmö 12. júní 2014.


Fjögur viðtöl hafa birst við Vigdísi Finnbogadóttur í 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins. Árið 1980 ræddi Þórunn Sigurðardóttir við Vigdísi, sem þá var í forsetaframboði. Ári seinna birtist viðtal Helga H. Jónssonar við nýjan forseta um fyrsta árið í embætti og árið 1987 spjallaði Rannveig Jónsdóttir við Vigdísi um forsetastörfin og uppvaxtarárin. 

Myndasafn úr forsetatíð Vigdísar birtist í 19. júní árið 1996 þegar Vigdís lét af embætti og árið 2010 var birt viðtal við Vigdísi um störf hennar eftir forsetaembættið, en það árið fagnaði hún áttræðisafmælinu og við minntumst þess að 30 ár væru liðin frá kjöri hennar sem forseta.

Hægt er að votta Vigdísi virðingu sína með því að styðja Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem styrkir verkefni á sviðum tungumála, menningar og samskipta. Vigdís er formaður stjórnar sjóðsins, en viðfangsefni hans hafa hafa löngum verið meðal hennar helstu hugðarefna. 

Á Facebook er hægt að setja #TakkVigdís ramma á forsíðumynd í tilefni af afmæli frú Vigdísar, til að þakka henni fyrir störf hennar í þágu kvenréttinda og lýðræðis.

Aðrar fréttir