Félags- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nýtt Jafnréttisráð í samræmi við ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem tóku gildi 6. mars síðastliðinn.

Formaður Jafnréttisráðs er Hildur Jónsdóttir og varaformaður Mörður Árnason, en bæði eru þau skipuð, án tilnefningar, af félags- og tryggingamálaráðherra. Aðrir fulltrúar í Jafnréttisráði eru: Maríanna Traustadóttir og Halldóra Friðjónsdóttir, tilnefndar af Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja; Hörður Vilberg og Björn Rögnvaldsson, tilnefndir af Fjármálaráðuneytinu og Samtökum atvinnulífsins; Una María Óskarsdóttir og Þorbjörg Inga Jónsdóttir, tilnefndar af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands; Guðrún Jónsdóttir, tilnefnd af Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum; Arnar Gíslason, tilnefndur af Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum; Lúðvík Börkur Jónsson, tilnefndur af Félagi um foreldrajafnrétti og Svandís Svavarsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Tilnefndir fulltrúar hafa einnig varamenn.