Kvenréttindafélag Íslands kærir Alþingi til kærunefndar jafnréttismála

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir leggur inn kæru Kvenréttindafélagsins til kærunefndar jafnréttismála, 19. desember 2017

Kvenréttindafélag Íslands hefur kært Alþingi til kærunefndar jafnréttismála vegna brots á jafnréttislögum við skipan í fjárlaganefnd á yfirstandandi þingi. Í síðustu viku tóku sæti í nefndinni 8 karlar og 1 kona.

Í 15. gr. jafnréttislaga er kveðið skýrt á um að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% af hvoru kyni. Skipun Alþingis í fjárlaganefnd fer með grófum hætti gegn lagaákvæðinu, þar sem hlutföllin eru 89% karlar og 11% kona.

Kvenréttindafélag Íslands hefur margoft skorað á og hvatt Alþingi og stjórnvöld að gæta að kynjahlutföllum við skipan ríkisstjórnar og við skipan í nefndir og ráð, nánar tiltekið fjórum sinnum á síðastliðnu ári, síðast 14. nóvember síðastliðinn. Að mati Kvenréttindafélagsins hefur Alþingi nú sýnt í verki að jafnréttislög eru hreinlega virt að vettugi við skipan í nefndir og því taldi félagið ljóst að leita þyrfti annarra leiða en að senda út ályktanir og áskoranir.

Í kærunni er því lýst hvernig ákvæðið um kynjahlutföll var brotið en einnig hvernig Alþingi gætir ekki að 2. og 3. mgr. 15. gr. jafnréttislaga, þar sem segir að tilnefningaraðilar skuli tilnefna einstaklinga af báðum kynjum, einmitt til að koma í veg fyrir brot. Slík framkvæmd tíðkast innan stjórnsýslunnar og víða hjá sveitarfélögum, en Alþingi hefur einhverra hluta vegna ekki talið sér skylt að fylgja skýrum reglum jafnréttislaga. Í fundargerð frá þingfundi 14. desember síðastliðnum kemur eftirfarandi fram: „Við kosningu í nefndir kom fram listi með samtals jafnmörgum nöfnum og menn skyldi kjósa. Kosningin fór því fram án atkvæðagreiðslu […].“ Ekki verður því séð að tilnefningaraðilar hafi tilnefnt fólk af báðum kynjum í nefndina.

Þegar horft er til annarra nefnda þingsins kemur í ljós að 5 af 8 eru ekki í samræmi við jafnréttislög og hallar á konur í öllum nefndum nema einni. Í allsherjar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd eru konur 33% nefndarmanna og karlar 67%. Aðrar nefndir, þ.e. atvinnuveganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og utanríkismálanefnd eru skipaðar í samræmi við lögin, með 44% og 56% nefndarmanna af hvoru kyni. Þá vakti athygli Kvenréttindafélagsins að konur skipa 36% af nefndarsætum í heild en eru þó 38% þingmanna.

Kvenréttindafélag Íslands leggur fram kæru til kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar í þá nefnd sem kynjahlutföllin eru verst, fjárlaganefnd, og telur félagið að þetta sé í fyrsta sinn sem það er gert. Það er með engu ásættanlegt að löggjafinn fylgi ekki lögum. Við sættum okkur ekki lengur við það að konur eigi ekki sæti við borðið. Kynjajafnrétti og jöfn þátttaka kvenna og karla í ákvarðanatöku er grundvöllur lýðræðisins, sem og hagsældar og velferðar okkar allra.

Lesið kæruna hér.