Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Yfirlýsing samstöðufunda kvenna, 24. október 2018

Frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum sem deilt hefur verið undanfarið ár á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #MeToo undirstrika að kjaramisrétti er ekki eina misréttið sem konur þurfa að glíma við á vinnumarkaði. Við stöndum hér saman til að lýsa því yfir, hátt og snjallt, að kynferðisleg áreitni og ofbeldi er ólíðandi með öllu!

Við verðum að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Við verðum að skapa samfélag þar sem störf kynjanna eru metin að verðleikum, samfélag þar sem kjarajafnrétti ríkir.

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru konur með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Konur vinna þó lengur en karlar ef lögð er saman vinnan innan heimilis sem utan. Konur eru að jafnaði að lágmarki fjórfalt lengur frá vinnumarkaði en karlar vegna barneigna og þriðjungur kvenna er í hlutastarfi vegna ábyrgðar á fjölskyldu- og heimilisstörfum. Það hallar á konur í valda- og áhrifastöðum og hefðbundin kvennastörf eru vanmetin sem endurspeglast í lægri launum og lakari vinnuaðstæðum. Þetta vanmat á framlagi kvenna þýðir lægri ævitekjur og lífeyrisgreiðslur og vaxandi kulnun í starfi.

Þessu þarf að linna, kjarajafnrétti strax!

Nú ganga konur út kl. 14:55, á mínútunni sem við hættum að fá borguð laun fyrir vinnuna okkar. Þetta er í sjötta skipti síðan 1975 sem við göngum út til að mótmæla kynbundnu kjaramisrétti, en enn eigum við langt í að ná jafnrétti. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 29 ár eftir að konur fái sömu tekjur og karlar.

Við bíðum ekki lengur!

Það er nóg komið, þessi tími er liðinn, konur eiga að vera metnar að verðleikum, njóta jafnréttis og vera óhultar jafnt heima sem í vinnu!

  • Við krefjumst þess að grundvallarmannréttindi allra séu virt á Íslandi, svo engin þurfi að líða fyrir kyn sitt, uppruna, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu, fötlun, aldur, búsetu, lífsskoðun, félagslega stöðu eða efnahag.
  • Við krefjumst styttri vinnuviku til að stuðla að jafnari vinnutíma kvenna og karla í launuðum sem ólaunuðum störfum.
  • Við krefjumst þess að fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðslur sem samsvara lágmarkslaunum verði óskertar og öruggrar dagvistunar strax að loknu fæðingarorlofi.
  • Við krefjumst aðgerða og kynjakvóta til að auka hlut kvenna í áhrifa- og valdastöðum og að kvennastörf séu metin að verðleikum bæði í launum og virðingu.
  • Við krefjumst þess að stjórnvöld setji kynjajafnrétti og baráttuna gegn kynbundu ofbeldi í forgang á öllum stigum og sýni stórhug í að taka ákvarðanir til að jafna stöðu kynja og tryggja að fjölbreytileiki samfélags okkar fái að njóta sín.
  • Við krefjumst þess að jafnrétti og kynjafræði verði gerð að skyldufagi á öllum skólastigum, að í skólum landsins kennum við næstu kynslóð um fjölbreytileika samfélagsins. Kennsla í kynjafræði er lykillinn að því að breyta samfélagi okkar til frambúðar, uppræta staðalmyndir kynja og klámvæðingu samfélagsins.
  • Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis og mismununar, og að stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir og taki af festu á kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði.
  • Við krefjumst þess að hlustað sé á þolendur og tekið sé mark á sögum þeirra. Konur sem upplifa ofbeldi, áreitni, niðurlægingu og smánun eru ekki lítill hópur heldur allar konur samfélagsins úr öllum kimum samfélagsins. Konur sem tilheyra mismunandi minnihlutahópum upplifa mismunandi birtingarmyndir ofbeldis og áreitni sem við þurfum að taka tillit til.

Við skilum hér með skömminni þangað sem hún á heima til gerendanna, til atvinnurekenda, til stjórnvalda, til réttarkerfisins, til samfélagsins sem hefur látið ofbeldi og misrétti viðgangast um aldaraðir. Við lýsum yfir stuðningi við þær þúsundir kvenna sem hafa komið fram opinberlega og deilt sögum sínum af áreitni, ofbeldi og misrétti, á vinnustað og í samfélaginu öllu. Við lýsum einnig yfir stuðningi við þær konur sem ekki hafa stigið fram. Við erum hér fyrir ykkur, fyrir okkur öll!

Öxlum öll ábyrgð á að breyta menningunni. Í vinnunni, heima, í skólum, í vinahópnum, í íþróttum, í félagsstarfi, og allstaðar. Við berum öll ábyrgðina á því að halda umræðunni vakandi, að sýna virðingu og samkennd í samskiptum við náunga okkar, auka vitund og skilning á kynjakerfinu sem við búum við.

Jafnréttismál eru hagsmunir okkar allra, ekki bara kvenna. Breytum menningunni og hugarfarinu, saman! Stöndum saman og höfum hátt!

Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Kjarajafnrétti STRAX!