Bókaútgáfa

Kvenréttindafélag Íslands hefur gefið út ýmsar bækur í gegnum árin.

Ber þar sérstaklega að nefna Gegnum glerþakið: valdahandbók fyrir konur eftir Maria Herngren, Eva Swedenmark og Annica Wennström í þýðingu Bjargar Árnadóttur og  Veröld sem ég vil : saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992 eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur sem enn í dag er heildstæðasta saga kvennabaráttunnar hér á landi.

Báðar þessar bækur eru til sölu á skrifstofu Kvenréttindafélagsins á vægu verði, 500 kr. fyrir Gegnum glerþakið og 1.000 kr. fyrir Veröld sem ég vil.

Konur á ystu nöf

Konur á ystu nöfÁrið 2014 gaf Kvenréttindafélagið út ljóðabókina Konur á ystu nöf í samstarfi við bókaútgáfuna Meðgönguljóð. Konur á ystu nöf er afrakstur samnefndrar bókmenntahátíðar sem haldin var í Reykjavík júlí 2014. Í safninu birtast ljóð eftir Arngunni Árnadóttur, Bergrúnu Önnu Hallsteinsdóttur, Björk Þorgrímsdóttur, Valgerði Þóroddsdóttur, Juuli Niemi og Vilja-Tuulia Huotarinen frá Finnlandi, Katti Frederiksen frá Grænlandi og Vónbjørt Vang frá Færeyjum.

Við ættum öll að vera femínistar


Árið 2017, á 110 ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands, gaf félagið öllum nýnemum við framhaldsskóla á landinu bókina Við ættum öll að vera femínistar eftir Chimamanda Ngozi Adichie, þýdd af Ingunni Ásdísardóttur.

Útgáfan var samstarfsverkefni milli Kvenréttindafélagsins og Benedikts bókaútgáfu og var bókinni ætlað að vera upphafspunktur í umræðum um femínisma og jafnréttismál í framhaldsskólum landsins.

Hægt er að kaupa eintak af Við ættum öll að vera femínistar á vef bókabúðarinnar Eymundsson.

Útgefnar bækur kvenna 1800-1956

Árið 1957 gaf Kvenréttindafélag Íslands út sérlega merkilegt rit. Félagið fagnaði 50 ára afmæli sínu  á árinu og að því tilefni var sett upp vegleg afmælissýning á verkum kvenna á sviði bókmennta, myndlistar og iðnaðar. Einnig var tekinn saman listi yfir útgefnar bækur kvenna frá árinu 1800 til 1956.

Þessi bókaskrá hefur lengi verið ófáanleg, en í tilefni kvennafrídagsins 2014 gáfum við út það verk í rafrænni útgáfu.

Smellið hér til að lesa bókaskrá kvenna 1800-1957!