Húsið

hallveigarstadir

Kvennaheimilið Hallveigarstaðir er eina húsið enn í eigu kvennahreyfingarinnar á Íslandi. Það er staðsett á Túngötu 14 í miðbæ Reykjavíkur.

Hallveigarstaðir voru byggðir af kvennasamtökum hér á Íslandi og ætlað að vera miðstöð þeirra. Húsið var vígt 1967 og var gefið nafnið Hallveigarstaðir í minningu Hallveigar Fróðadóttur, fyrstu húsfreyjunnar í Reykjavík, eiginkonu Ingólfs Arnarsonar.

Ýmis félagasamtök sem berjast fyrir kvenréttindum og jafnréttismálum hafa aðsetur þar, svo sem Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Druslubækur og doðrantar, W.O.M.E.N. in Iceland – Samtök kvenna af erlendum uppruna, Félag einstæðra foreldra og Kvennaráðgjöfin.

Aðgengismál

Stólalyfta var sett upp á Hallveigarstöðum í apríl 2015 og nýtt salerni fyrir fatlaða byggt í kjallara hússins.

Aðgengi er þar með komið á öll opnu svæði Hallveigarstaða, á jarðhæð og í kjallara þar sem samkomusalur hússins er til staðar.

Styrkir til fundar- og hátíðarhalda

Hallveigarstöðum var frá opnun ætlað að vera heimili kvenna á Íslandi. Við í Kvenréttindafélaginu lítum á það sem skyldu okkar að bjóða fólki með góðar hugmyndir um jafnréttisverkefni aðstoð og jafnvel aðstöðu í starfi þeirra.

Einnig bjóðum við salarkynni okkar til fundarhalds og til að halda viðburði og hátíðir sem tengjast kvenréttindum, menningu kvenna og sögu kvenna.

Hægt er að sækja um styrk til að halda viðburði á Hallveigarstöðum. Lærið meira hér.


Félagaskráning - Popp