Hvað gerum við?

Femínistahátíð eftir Þóreyju Mjallhvíti

Kvenréttindafélag Íslands hefur staðið vörð um réttindi kvenna á Íslandi í meira en hundrað ár.

Kvenréttindafélag Íslands eru ein elstu félagasamtök Íslands, en það var stofnað árið 1907 af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til að stuðla að framgangi kvenna í íslensku samfélagi, hvort sem er í stjórnmálum, atvinnulífi, menntun eða menningu.

Við skrifum umsagnir um lagafrumvörp og opinberar skýrslur, við höldum reglulega opna fundi og málþing um málefni sem varða jafnrétti og kvenréttindabaráttunni, og við styðjum við yngri grasrótarsamtök sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna og bjóðum þeim aðstöðu á heimili okkar, Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum.

Á döfinni

Starfsemi Kvenréttindafélagsins er fjölbreytt. Um þessar mundir vinnur félagið sérstaklega að undirbúningi herferðar gegn hefndarklámi og er lokatakmark þeirrar herferðar að lögð verði fram lagabreytingatillaga á Alþingi til að gefa lögreglunni verkfæri til að bregðast við óleyfilegum myndbirtinum á veraldarvefnum.

Bókaútgáfa og tímarit

Félagið hefur gefið út ýmsar bækur um kvenréttindi og kvennasögu. Ber þar sérstaklega að nefna Gegnum glerþakið: valdahandbók fyrir konur eftir Maria Herngren, Eva Swedenmark og Annica Wennström í þýðingu Bjargar Árnadóttur og Veröld sem ég vil : saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992 eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur sem enn í dag er heildstæðasta saga kvennabaráttunnar hér á landi.

Árið 2014 gaf Kvenréttindafélagið út ljóðabókina Konur á ystu nöf í samstarfi við bókaútgáfuna Meðgönguljóð. Konur á ystu nöf er afrakstur samnefndrar bókmenntahátíðar sem haldin var í Reykjavík júlí 2014. Í safninu birtast ljóð eftir Arngunni Árnadóttur, Bergrúnu Önnu Hallsteinsdóttur, Björk Þorgrímsdóttur, Valgerði Þóroddsdóttur, Juuli Niemi og Vilja-Tuulia Huotarinen frá Finnlandi, Katti Frederiksen frá Grænlandi og Vónbjørt Vang frá Færeyjum.

Kvenréttindafélagið hefur gefið út ársritið 19. júní síðan árið 1951. Nú er hægt að lesa alla árganga þessa tímarits á veraldarvefnum. Smellið hér!

Viðburðir á Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum

Kvenréttindafélagið hefur undanfarin ár haldið reglulega hádegisfundi þar sem fólk getur fræðst um jafnréttismál og gætt sér á súpu í boði félagsins. Þessir fundir lágu niður veturinn 2014 – 20115 þar sem ekki var aðgengi fyrir fatlaða.

Stólalyfta var loksins sett upp á Hallveigarstöðum í apríl 2015!


Félagaskráning - Popp