Kvennafrí 2010 - Ljósmyndari Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir

Kvennafrí 2010 – Ljósmyndari Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir

Í dag, 24. október, er íslenski kvennafrídagurinn.

36 ár eru liðin síðan íslenskar konur lögðu niður vinnu og gengu fylktu liði niður Laugaveginn til að berjast fyrir betri stöðu í íslensku samfélagi. Talið er að um 30.000 konur hafi verið á Lækjartorgi þennan haustdag.

Kvennafrídagurinn var skipulagður af konum út um allt land, af öllum þjóðfélagshópum og af öllum vængjum stjórnmálanna. Kvennafríið var sýnilegasta framlag Íslendinga til Kvennaárs Sameinuðu þjóðanna, en SÞ hafði tilskipað að 1975 skyldi vera alþjóðlega ár konunnar.

Sameinuðu þjóðirnar boðuðu til fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunnar um málefni kvenna árið 1975 í Mexico City, og alþjóðlegar stofnanir urðu til þetta ár til að berjast fyrir réttindum kvenna, sú stærsta eflaust UNIFEM. unwomen.is.

Íslenskar konur endurtóku leikinn árið 2005 þegar 60.000 konur mættu í miðborg Reykjavíkur og aftur í fyrra, 2010, þegar 50.000 konur mættu í miklu óveðri til að ganga fyrir réttindum kvenna.

Hér er hægt að finna heimasíðu kvennafrísins 2005, heimasíðu kvennafrísins 2010 og Kvennasögusafnið hefur sett upp myndasíðu frá kvennafrídeginum 2010.

Forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur skrifað grein í tilefni dagsins, þar sem hún tilkynnir að í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar sé starfandi sérstök ráðherranefnd um jafnrétti kynjanna og að sérstök framkvæmdanefnd um launamun kynjanna muni skila heildstæðri fjögurra ára áætlun um aðgerðir gegn kynbundnum launamun fyrir áramót.