Hið árlega 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst 25. nóvember og stendur til 10 desember. Að þessu sinni er yfirskrift átaksins: Leggðu þitt að mörkum – Farðu fram á aðgerðir: Saman getum við bundið enda á ofbeldi gegn konum!
Í tilefni af upphafsdegi átaksins standa mannréttindasamtök og kvennahreyfingin á Íslandi fyrir Ljósagöngu til að vekja athygli á ofbeldi gegn konum og hvetja til aðgerða. Farið verður frá Þjóðmenningarhúsinu kl. 19:00 og gengið niður að Sólfarinu við Skúlagötu en Friðarsúlan verður að þessu sinni tendruð kl. 19:45 og hefur Yoko Ono samþykkt að ljós friðarsúlunnar verði tileinkað alþjóðadegi til afnáms ofbeldis gegn konum. Í fararbroddi göngunnar verða kyndilberar og einnig verða stjörnuljós höfð með í för.
Allir eru hvattir til að mæta í gönguna til að minna á mikilvægi þess að uppræta ofbeldi gegn konum í öllum sínum birtingarmyndum.
Kynbundið ofbeldi er útbreiddasta ofbeldi á heimsvísu; kynfæralimlestingar, kynferðisofbeldi, „heiðursmorð“ og ofbeldi á heimilum er meðal þess sem milljónir kvenna verða fyrir á degi hverjum. Þótt staða íslenskra kvenna sé á mörgum sviðum sterk þá er kynbundið ofbeldi alvarlegt vandamál hér á landi. Árið 2008 leituðu t.a.m. 547 einstaklingar til Stígamóta en frá upphafi samtakaanna til ársloka 2008 hafa alls 5.279 manns leitað þar aðstoðar. Frá upphafi Kvennaathvarfs til loka ársins 2008 hafa um 5800 konur leitað þangað.
Að 16 daga átaki standa eftirfarandi samtök:
Aflið, Alnæmisbörn, Alnæmissamtökin á Íslandi, Alþjóðahús, Amnesty International á Íslandi, Barnaheill, Blátt áfram, Bríet-Félag ungra femínista, Femínistafélag Íslands, Háskólinn á Akureyri, Jafningjafræðsla Hins hússins, Jafnréttisstofa, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvennasögusafnið, Kvenréttindafélag Íslands, Leikfélag Akureyrar, Lýðheilsustöð, Lögreglan í Reykjavík, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar, Prestur innflytjenda, Rauði Kross Íslands, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Soroptimistasamband Íslands, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Stígamót, UNICEF á Íslandi, UNIFEM á Íslandi, V-dagssamtökin, Zonta á Íslandi, Þjóðkirkjan.