Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:
Í dag birtist áskorun 306 stjórnmálakvenna vegna kynferðisofbeldis og áreitni. Með áskoruninni birtust sögur af áreitni og ofbeldi sem konur hafa orðið fyrir í íslenskum stjórnmálum.
Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með bein ógn við lýðræði á Íslandi. Hve lengi ætlum við að líða það að konur hrökklist úr starfi vegna áreitni og ofbeldis sem þær eru beittar á opinberum vettvangi? Hve lengi ætlum við að líða það að konur á Íslandi búi ekki við öryggi, hvorki inni á heimilum né á vinnustað? Hve lengi ætlum við að líða það að karlar geti áreitt konur og beitt þær ofbeldi, án hindrunar, eftirmála og án refsingar? Ekki lengur!
Kvenréttindafélag Íslands var stofnað fyrir 110 árum til að tryggja það að konur gætu tekið þátt í samfélaginu á sömu forsendum og karlar. Að þær hefðu sama rétt til stjórnmálaþátttöku, náms, embætta og atvinnu og karlar. Þótt mikið hafi áunnist á þessum langa tíma þá er grundvöllurinn undir starfi félagsins enn sá sami.
Við lítum með þakklæti til súffragettanna sem börðust fyrir kosningarétti kvenna um aldamót síðustu aldar, til kvennanna sem örkuðu niður Laugaveginn á rauðum sokkum á áttunda áratugnum, til kvennanna sem ákváðu að nú væri nóg komið og stofnuðu sinn eiginn stjórnmálaflokk og gjörbreyttu íslenskum stjórnmálum. Nú á byltingin sér stað á nýjum vettvangi: á veraldarvefnum, undir myllumerkjum eins og #metoo, #églíka, #konurtala, #höfumhátt, #freethenipple og #ískuggavaldsins.
Kvenréttindafélag Íslands stendur með öllum konum sem stíga fram og draga frá tjöldin, varpa ljósi á ofbeldi og kynferðislega áreitni sem meðal annars valdamenn þessa lands stunda. Við lítum með aðdáun til þeirra kvenna sem nú hafa tekið upp gunnfána kvenfrelsis og kvenréttinda og afhjúpað það landlæga ofbeldi og áreiti sem konur á Íslandi hafa þurft og þurfa að sætta sig við á opinberum vettvangi.
Nú verður ekki aftur snúið. Ofbeldismenn komast ekki lengur upp með að káfa, þukla, króa af, þrýsta að sér brjóstum, segja niðrandi brandara eða hvaða aðferð sem þeir nota.
Við stöndum saman gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Byltum samfélaginu, saman.
Hallveigarstaðir, 21. nóvember 2017
One Comment
Comments are closed.
[…] minnum á ályktun sem Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér þegar fyrstu yfirlýsingar #MeToo-kvenna birtust […]