Kvenréttindafélag Íslands mótmælir harðlega áætlunum ríkisstjórnar að stofna nýtt dómsstig án þess að hafa jafnréttissjónarmið í huga.

Síðustu daga hafa farið fram umræður á Alþingi um frumvarp um bráðabirgðabreytingar á nýjum dómstólalögum um skipun nýs millidómsstigs, Landsréttar. Hefur m.a. verið tekist á um hvaða reglur og sjónarmið eigi að gilda um skipan dómara við nýja dómstólinn.

Þann 7. febrúar sl. mælti Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, fyrir frumvarpinu. Ráðherra var spurður hvort ekki væru ástæða til þess að setja ákvæði um að sérstaklega yrði horft til sjónarmiða um jafnrétti kynjanna, og væri tilgangurinn að vinna markvisst að því að jafna kynjahlutföll meðal dómara. Í svari ráðherra kom fram að hún sé mótfallin því að festa slík ákvæði í lög og hún bætti svo því við að þess lags umræða væri að hennar mati jafnréttisumræðunni ekki til framdráttar. Málið var rætt aftur í dag, 24. febrúar. Eftir þá umræðu liggur fyrir að ráðherra og meirihluti allsherjar- og menntamálefndar eru andvíg því að setja ákvæði um jöfn kynjahlutföll meðal dómara. Minnihluti nefndarinnar hefur skilað breytingatillögu um málið þar sem lagt er til að vísað sé til laga um jafna stöðu og jafna rétt karla og kvenna í lagaákvæðinu sem fjallar um skipan dómara.

Kvenréttindafélag Íslands vill árétta, af þessu tilefni, að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum sendi tilmæli til íslenskra stjórnvalda í mars 2016 um að grípa tafarlaust til aðgerða, þar á meðal sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í háttsettum embættum innan utanríkisþjónustunnar. Íslenskum stjórnvöldum ber að framfylgja ábendingum Sameinuðu Þjóðanna í hvívetna. Álit minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar vísar einnig til þessara tilmæla.

Árið 2015 sendu 10 kvennasamtök frá sér ályktun þar sem starfsháttum þáverandi innanríkisráðherra var mótmælt, þegar aðeins karlar voru skipaðir í dómnefnd sem meta á hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur dómsmálaráðherra og Alþingi til þess að vinna markvisst að því að jafna kynjahlutföll innan dómskerfisins, nú þegar skipa á 15 nýja dómara. Við getum gert betur og við eigum að gera betur.

Kynjajafnrétti er grundvöllur hagsældar og velferðar og án valdeflingar og þátttöku kvenna á opinberum vettvangi er ekki hægt að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um frið, jafnrétti og lýðræði.

Hallveigarstaðir, 24. febrúar 2017

 

Comments are closed.

Aðrar fréttir