Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda)

Stígamót, Kvenréttindafélag Íslands, Aflið, Kvennaráðgjöfin, NORDREF, Öfgar, Rótin, Samtök um kvennaathvarf, UN Women á Íslandi og W.O.M.E.N. hafa sent frá sér eftirfarandi sameiginlega umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Mál nr. 50/2022, dómsmálaráðuneytið. 

 

 

Hallveigarstaðir, Reykjavík
14. mars 2022

Í þessari umsögn er að finna ábendingar undirritaðra samtaka um framkomin frumvarpsdrög. Hér verður fjallað um þau atriði frumvarpsins sem snúa að réttarstöðu brotaþola.

Talsverðar breytingar hafa orðið á frumvarpinu frá því sem lagt var fram á síðasta þingi um sama efni. Mikilvæg skref hafa verið stigin fram á við og góð vinna lögð í rökstuðning frumvarpsins.

Í frumvarpi þessu leggur dómsmálaráðherra þó ekki til fulla aðildarstöðu brotaþola ofbeldis. Hann telur slíka breytingu myndu skaða stöðu brotaþola þar sem litið er svo á að framburður vitnis hafi meira sönnunargildi en framburður aðila í sakamáli. Lögfræðilega má þetta vel vera en raunveruleikinn segir aðra sögu. Nú eru t.d. mál átta kvenna til umfjöllunar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu sem öll hafa verið felld niður og því ekki fengið áheyrn dómstóla. Í ítarlegri skoðun lögmanna á þessum átta málum fólst vandinn gjarnan í því að neitun sakbornings virtist vega þyngra en framburður brotaþola, studdur með vitnum og sönnunargögnum. Þessi veruleiki hindrar réttláta málsmeðferð fyrir brotaþola og rímar engan veginn við þá túlkun lögfræðinnar að framburður brotaþola, með stöðu vitnis, hafi meira vægi en framburður sakbornings sem aðili máls. Að okkar mati mætti því í frumvarpinu taka það skref að veita brotaþolum fulla aðild að málinu.

Þolendur kynferðisofbeldis og kynbundins ofbeldis hafa lengi kallað eftir róttækum breytingum á réttarkerfinu. Iðulega upplifa þau sig sett til hliðar og að málsmeðferðin komi þeim einfaldlega ekki við. Hin formlega staða vitnis í málinu undirstrikar þessa upplifun brotaþola og í raun staðfestir hana. Mikilvægt er að brotaþoli fái aðildarstöðu í málinu, ekki síður á grundvelli hugmyndafræði en vegna lagaréttinda. Þegar manneskja er beitt ofbeldi er tekið af henni allt vald yfir eigin líkama og afmennskunin er algjör. Að upplifa áframhaldandi útskúfun í réttarkerfinu, í stað þess að fá eitthvað af valdinu til baka, er alls ekki til þess fallið að færa brotaþola réttlæti.

Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er vissulega reynt að gefa brotaþolum sterkari stöðu í meðferð málsins og ýmis skref tekin til að auka þátttöku þeirra í ferlinu, sem er til bóta frá núgildandi lögum. Hins vegar væri eðlilegast að löggjafinn viðurkenndi þá augljósu staðreynd að þolandi ofbeldis er ekki vitni að ofbeldinu heldur sá aðili sem varð fyrir árás. Kynferðisofbeldi er ein alvarlegasta árásin á líf og manngildi manneskju og hefur oftast gríðarlegar andlegar, félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar. Undir þessi sjónarmið taka rúmlega 12.000 manns sem skrifuðu undir áskorun til dómsmálaráðherra um að gera brotaþola ofbeldis að aðilum mála sinna í herferðinni Vettvangur glæps á vegum Stígamóta í febrúar síðastliðnum.

Konurnar sem fóru fyrir átakinu lýstu því hvernig meðferð réttarkerfisins á málum þeirra varð að öðru áfalli í kjölfar ofbeldisins. Vissulega voru þær ósáttar við lyktir mála sem ýmist var niðurfelling, sýkna í héraði eða sýkna í landsrétti; en mesta reiðin beindist þó að meðförum réttarkerfisins á þeim sem manneskjum. Útilokun kerfisins, studd af lögum um stöðu brotaþola sem vitni, gerði það að verkum að þær misstu traust á kerfið. Það kristallast í því að ein þeirra dró kæruna til baka vegna fálætis kerfisins á því að vernda hana og upplýsa. Raunar er það svo að margir brotaþolar upplifa sig sem ekkert annað en vettvang glæpsins – upplifun sem endurspeglar hlutgervinguna sem kynferðisofbeldi byggist á. Því þarf staða brotaþola í réttarkerfinu að vera alveg skýr og undirstrika gildi þeirra sem manneskja.

Virðingarfyllst,
Aflið – Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
NORDREF – Nordic Digital Rights and Equality Foundation
Öfgar
Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna
Samtök um kvennaathvarf
Stígamót
UN Women á Íslandi
W.O.M.E.N. – Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi