Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um grænbók um mannréttindi. Mál nr. 74/2022, Forsætisráðuneytið 

7.febrúar 2022
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Nú liggur í samráðsgátt beiðni um umsagnir við grænbók um mannréttindi. Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að vinna sé hafin á ný við stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar til samræmis við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 48/134 um innlendar mannréttindastofnanir (National Human Rights Institutions) og Parísarreglur þeirra um stöðu og verksvið slíkra stofnana.

Íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli þess efnis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2016 (UPR) og var samþykkt að fylgja þeim eftir. Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. m. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er það gert að kröfu í 2. mgr. 33. gr. að til staðar sé slík stofnun sem hluti af eftirlitskerfi samningsins. Er frumvarpið því jafnframt liður í að fullgilda þann samning, en vinna við að koma slíkri stofnun hefur staðið yfir síðan frumvarp lagt fram þess efnis árið 2016 og aftur 2019, þegar Kvenréttindafélag Íslands ítrekaði einnig mikilvægi slíkrar stofnunar á Íslandi.

Kvenréttindafélag Íslands er eitt af aðildarfélögum Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ), sem sinnir helstu verkefnum innlendrar mannréttindastofnunar á Íslandi. Skrifstofan hefur frá upphafi komið, og kemur enn, fram fyrir Íslands hönd á vettvangi Evrópuráðsins og hjá Sameinuðu þjóðunum. Skrifstofan er fulltrúi Íslands í norrænu samstarfi og í Evrópusamtökum mannréttindastofnana. Frá stofnun MRSÍ árið 1994 hefur það verið yfirlýst markmið aðildarfélaga hennar að skrifstofan fái stöðu innlendrar, sjálfstæðrar mannréttindastofnunar. Sem eitt aðildarfélaga að MRSÍ hvetur Kvenréttindafélag Íslands til þess að reynsla, þekking, tengslanet og í raun öll starfsemi MRSÍ verði nýtt við stofnun innlendar mannréttindastofnunar enda væri það stjórnvöldum til mikils hagræðis, sparar jafnt umtalsverðan kostnað, vinnu, tengslamyndun o.fl.

Ennfremur þá leggur Kvenréttindafélag Íslands áherslu á það að aðildarfélög MRSÍ verði höfð með í öllu ferlinu þegar kemur að því að setja upp sjálfstæða mannréttindastofnun, þar sem þau eru fulltrúar þeirra hópa sem mannréttindaskrifstofa kemur m.a. til með að sinna. Kvenréttindafélag Íslands biðlar því til stjórnvalda að fleiri fundir verði haldnir með bæði MRSÍ og aðildarfélögum þess, sem og öðrum frjálsum félagasamtökum áður en Grænbók verður kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar 2023, því samkvæmt tímalínu sem kynnt er nú í samráðsgátt virðast fleiri fundir ekki vera á dagskrá. Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að vinnan verði kynnt jafnóðum og að félagasamtök fái að vera með í ferlinu, til þess að geta leiðbeint stjórnvöldum með sérþekkingu sinni í ferlinu öllu, ekki einungis í gegnum samráðsgátt.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur til þess að stjórnvöld tryggi að ný og sjálfstæð mannréttindastofnun sé nægilega stöndug til að sinna allri mannréttindagæslu í íslensku samfélagi. Í mati á áhrifum lagasetningarinnar sem fram komu í samráðsgáttinni (lið G) í frumvarpi frá 2019, var áætlað að aðeins þrír starfsmenn skuli starfa hjá mannréttindastofnuninni. Dregur Kvenréttindafélagið stórlega í efa að þetta sé nægilegur starfsmannafjöldi til að anna öllum þeim verkefnum sem stofnuninni ber að sinna og vonast því til þess að tillit verði tekið til þess við gerð nýs frumvarps.

Á meðan Kvenréttindafélag Íslands fagnar þeim málum og álitaefnum sem fram koma í verkefnaáætlun að mannréttindastofnun skuli sinna, þá vonast Kvenréttindafélagið til þess að sá listi sé ekki tæmandi.  Þar kemur m.a. ekki fram að sjálfstæð mannréttindastofnun komi til með að sinna fræðslu og ráðgjöf við einstaklinga og samtök, sem er nú stór hluti þess starfs sem núverandi mannréttindaskrifstofa sinnir. Kvenréttindafélag Íslands telur mikilvægt að það starf verði enn til staðar, og styrkt enn frekar með nýrri mannréttindastofnun.

 

Aðrar fréttir