6 konur hlutu styrk Menningar- og minningarsjóðs kvenna 2016. Hugrún R Hjaltadóttir, formaður sjóðsins, Ewelina Osmialowska, Sinéad McCarron, Edythe Laquindanum Mangindin, Anna Wojtynska og Cynthia Trililani. Á myndina vantar Zohreh Pourkazemi.

6 konur hlutu styrk Menningar- og minningarsjóðs kvenna 2016. Hugrún R Hjaltadóttir, formaður sjóðsins, Ewelina Osmialowska, Sinéad McCarron, Edythe Laquindanum Mangindin, Anna Wojtynska og Cynthia Trililani. Á myndina vantar Zohreh Pourkazemi.

Menningar- og minningarsjóður kvenna var stofnaður 27. september 1941 í minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet fæddist 27. september 1856 á Haukagili í Vatnsdal og lést 16. mars 1940. Sjóðurinn hefur í 75 ár styrkt tugi kvenna til náms og starfa.

Í gær, á 160 ára afmæli Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, veitti Menningar- og minningarsjóður kvenna sex konum styrk, samtals 700.000 kr. Að þessu sinni voru veittir styrkir til kvenna af erlendum uppruna sem hafa ekki íslensku að móðurmáli og stunda nám við íslenska skóla. Þessar konur eiga það allar sameiginlegt að hafa valið að búa á Íslandi, þó ólíkar ástæður liggi þar að baki.

Tvær konur, Ewelina Osmialowska og Zohreh Pourkazemi, hlutu styrk til þess að ljúka námi við Háskóla Íslands þar sem þær stunda nám í íslensku sem annað tungumál. Þetta nám mun auðvelda þeim að vera virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Tvær konur hlutu styrk til áframhaldandi náms á meistarastigi, en báðar hafa þær reynslu sem þær vilja nota til þess að styðja við bakið á öðrum og er námið hluti af því markmiði. Sinéad McCarron stundar nám við Listaháskóla Íslands í listkennslu. Í lokaverkefni sínu vinnur Sinéad að því að skapa kennslu- og námsaðferðir sem efla nemendur en færast undan því að tiltaka takmarkanir og vangetu þeirra. Þessi kennsluaðferð nýtist vel fólki með lesblindu og ADHD. Edythe Laquindanum Mangindin, er nemi í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands. Edythe hefur áhuga á því að nýta reynslu sína sem kona af erlendum uppruna sem hefur átt barn á Íslandi til að hjálpa öðrum konum í framtíðinni.

Að  lokum hlutu tvær konur styrk til þess að stunda doktorsnám, sem báðar vinna að rannsóknum á stöðu erlendra kvenna á Íslandi. Anna Wojtynska er doktorsnemi í mannfræði við Háskóla Íslands.  Rannsókn hennar Migrations in times of transnationalism: Polish migrants in Iceland fjallar um pólska farandverkemenn á Íslandi, tengsl þeirra við heimalandið og hvaða áhrif þessi tengsl hafa á hversu vel þeir hafa samlagast íslensku samfélagi og þátttöku þeirra í íslensku samfélagi. Hún hefur sérstaklega skoðað stöðu kynjanna í þessu samhengi. Cynthia Trililani er doktorsnemi á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í námi sínu rannsakar hún erlendar konur sem eru í námi í háskólanum og jafnframt mæður.

Menningar- og minningarsjóður kvenna var stofnaður 27. september 1941 í minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Sjóðurinn var dánargjöf barna Bríetar í minningu móður sinnar til Kvenréttindafélags Íslands en hugmyndina að stofnun sjóðsins átt Bríet sjálf. Hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að styrkja konur til náms, hér á landi sem erlendis með náms- og ferðastyrkjum. Einnig að veita konum styrk til ritstarfa eða verðlauna ritgerðir, einkum um þjóðfélagsmál er varða áhugamál kvenna eins og segir í lögum sjóðsins. Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað einu sinni á ári.

Aðrar fréttir