Kvikmyndir eftir karla eru í miklum meirihluta þeirra kvikmynda sem teknar eru til sýninga á Íslandi. Kvenréttindafélag Íslands og Stockholms feministiska filmfestival hafa unnið rannsókn á kvikmyndum sem teknar voru til sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum og á RÚV árið 2016. Niðurstöðurnar eru sláandi.

Konur leikstýrðu aðeins 7% af kvikmyndum sem teknar voru til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum 2016. Sama kynjahlutfall er á kvikmyndum sem sjónvarpað var í RÚV 2016, konur leikstýrðu aðeins 7% kvikmynda sem þar voru sýndar.

Það að fólk hafi aðallega möguleika til að kynnast reynslu og sögu karla í kvikmyndum hefur slæm áhrif á kynjajafnrétti í samfélaginu.

„Kvikmyndir hafa áhrif á það hvernig fólk sér sig sjálft sig heiminn. Kvikmyndir og sjónvarpsefni á að endurspegla ólíka reynsluheima og brjóta upp einhæfar hugmyndir um karla og konur,“ segir Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands. „Sögurnar sem birtast á hvíta tjaldinu á Íslandi eru sögur karla. Hvar eru kvikmyndirnar sem konur segja, sem segja frá reynslu kvenna?“

Föstudaginn 24. febrúar bjóða Kvenréttindafélag Íslands, WIFT á Íslandi, Stockholms feministiska filmfestival ásamt Stockfish Film Festival til samræðna um kynjabilið í kvikmyndaiðnaðinum undir yfirskriftinni „Hvað er svona merkilegt við það? Kynjabilið á hvíta tjaldinu“.

Pallborðsumræðurnar hefjast kl. 17 í Bíó Paradís og við borðið sitja Ása Baldursdóttir dagskrár- og kynningarstjóri Bíó Paradísar, Dögg Mósesdóttir formaður WIFT á Íslandi, Guðrún Helga Jónasdóttir innkaupastjóri erlends efnis á RÚV, Hlín Jóhannesdóttir kvikmyndaframleiðandi, Margrét Örnólfsdóttir formaður Félags leikskálda og handritshöfunda, Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Þorsteinn Víglundsson jafnréttisráðherra. Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands ávarpa fundinn. Brynhildur Björnsdóttir stýrir fundi.

Aðgangur er ókeypis og opinn öllum. Lesið meira hér.

Um rannsóknina:

Rannsóknin náði til allra kvikmynda sem teknar voru til sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum árið 2016, sem og kvikmyndir sýndar í kvikmyndahúsum í Danmörku 2015 og í kvikmyndahúsum og á Netflix í Svíþjóð árið 2016. Kynjahlutfallið er langverst á Íslandi.

Ísland

 • Rannsóknin náði til allra kvikmynda sem sýndar voru í íslenskum kvikmyndahúsum árið 2016 (187 kvikmyndir)
 • 93% kvikmynda teknar til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum var leikstýrt af körlum
 • Karlar voru 84% handritshöfunda
 • Karlar voru 75% framleiðenda
 • Karlar voru 71% aðalsöguhetja
 • Aðeins 4,5 % kvikmynda sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum 2016 var bæði leikstýrt af konu og höfðu konu í aðalhlutverki
 • Rannsóknin náði til allra kvikmynda sem sýndar voru á RÚV 2016 (239 kvikmyndir)
 • 93% kvikmynda teknar til sýninga á RÚV var leikstýrt af körlum
 • 31 íslensk kvikmynd var sýnd á RÚV, þar af var 2 leikstýrt af konum

Danmörk

 • Rannsóknin náði til allra kvikmynda sýndar í dönskum kvikmyndahúsum árið 2015 (238 kvikmyndir)
 • 87% kvikmynda teknar til sýninga í dönskum kvikmyndahúsum var leikstýrt af körlum
 • Karlar voru 84% handritshöfunda
 • Karlar voru 74% framleiðenda
 • Karlar voru 69% aðalsöguhetja
 • Aðeins 6% kvikmynda sýndar í dönskum kvikmyndahúsum 2015 var bæði leikstýrt af konu og höfðu konu í aðalhlutverki
 • 91% heimsókna í kvikmyndahús var á kvikmyndir leikstýrt af körlum (aðsókn)

Svíþjóð

 • Rannsóknin náði til allra kvikmynda og sjónvarpsþátta sem frumsýnd voru á Netflix í Svíþjóð árið 2016
 • 96% kvikmynda frumsýndar á Netflix var leikstýrt af körlum
 • 87% handritshöfunda kvikmynda á Netflix voru karlar
 • 74% framleiðenda kvikmynda á Netflix voru karlar
 • 78% aðalsöguhetja kvikmynda á Netflix voru karlar
 • 1,5% kvikmynda á Netflix var bæði leikstýrt af konu og höfðu konu í aðalhlutverki
 • 85% sjónvarpsþátta frumsýndir á Netflix var leikstýrt af körlum
 • Rannsóknin náði til kvikmynda sem teknar voru til sýninga í sænskum kvikmyndahúsum 1. janúar 2016 til 1 desember 2016
 • 80% kvikmynda teknar til sýninga í sænskum kvikmyndahúsum var leikstýrt af körlum
 • Karlar voru 74% handritshöfunda
 • Karlar voru 69% framleiðenda
 • 90% heimsókna í kvikmyndahús var á kvikmyndir leikstýrt af körlum (aðsókn)

Rannsóknin var unnin sem hluti af verkefninu „Öka jämställdheten inom filmbranschen i Norden“, í samvinnu Stockholms feministiska filmfestival, Kvinderådet í Danmörku og Kvenréttindafélags Íslands. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.