Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að ný lög um kynjakvóta hafa verið samþykkt á Alþingi. Lögin sem taka til hlutafélaga, kveða á um að minnst þrír skuli mynda stjórnir hlutafélaga og að hvort kyn hafi sinn fulltrúa þar. Í stjórnum þeirra opinberu hlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa að jafnaði fleiri en 50 einstaklingar og fleiri en þrír sitja í stjórn, skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.
Þó að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. september 2013, skorar stjórn Kvenréttindafélags Íslands á hlutafélög í landinu að gera gangskör að því að jafna hlutfall kynja í stjórnum sínum sem fyrst. Félagið minnir á mikilvægi aðkomu beggja kynja að ákvörðunum á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þar að auki hafa innlendar og erlendar rannsóknir sýnt fram á að arðsemi fyrirtækja með blandaðar stjórnir er mun meiri en hjá fyrirtækjum þar sem einungis annað kynið situr í stjórn.
Hallveigarstöðum, 10. mars 2010